Meira en 850 milljónir Kínverja búa ekki lengur við sárafátækt. Þetta fullyrti Xi Jinping, forseti landsins, í sjónvarpsávarpi í dag þar sem þeim sem tekið hafa þátt í baráttunni gegn sárafátækt var fagnað. Á þeim átta árum sem hann hefur verið í forsetastóli hafi um hundrað milljónum verið bjargað frá sárafátækt sagði hann.
Frá því að kínverski kommúnistaflokkurinn sigraði borgarastríðið í landinu 1949 hefur hann staðið fyrir gríðarlega umfangsmikilli herferð gegn sárafátækt og sagði Xi um að „afrek án hliðstæðu“ væri að ræða af hálfu ríkis á nýöld.
„Það er ekkert ríki sem gæti náð slíkum árangri við að útrýma fátækt á svona stuttum tíma,“ fullyrti Xi. „Að útrýma sárafátækt er enn eitt stórt afrek mannkyns og verðugt þess að því verði haldið á lofti í sögunni. Þetta er mikill heiður kínverska kommúnistaflokksins og fólksins,“ sagði Xi enn fremur.

Er Xi tók við embætti forseta árið 2013 gerði hann útrýmingu sárafátæktar eitt af lykilmálum nýrrar stjórnar sinnar og var markmiðið að ljúka því fyrir árslok síðasta árs. Í lok 2019 voru íbúar Kína tæplega 1,4 milljarðar.
Alþjóðabankinn hefur hrósað kínverskum stjórnvöldum fyrir árangur sinn í baráttunni gegn sárafátækt og sagði árið 2017 að „árangurinn væri án hliðstæðu.“ Um 70 prósent af útrýmingu sárafátæktar hefði verið í Kína frá níunda áratugnum.