Landeigandi í Örlygshöfn gagnrýnir harðlega nýtekna ákvörðun Umhverfisstofnunar um breytingar á starfsleyfi Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði sem lýtur meðal annars að því að stytta hvíldartíma á þeim svæðum í fjörðunum þar sem eldið fer fram.

Landeigandinn, Marinó Thorlac­ius, gerði ítarlega athugasemd við tillögu stofnunarinnar að breyttu starfsleyfi og gagnrýnir sérstaklega matsskýrsluákvörðun Skipulagsstofnunar, sem hann segir ekki vera rökstudda með nægjanlegum gögnum „og er meingölluð í nánast öllum atriðum“, segir í athugasemdinni.

Marinó telur annað fráleitt en að breytt starfsleyfi fiskeldisfyrirtækisins verði látið sæta umhverfismati, en sífelldar undanþágur hafi verið veittar af fyrra umhverfismati, í þágu frekara fiskeldis í fjörðunum sem ógni í æ ríkari mæli lífríki á landareignum á svæðinu.

Ljóst sé að breytt starfsleyfi muni valda eitrunum út af Örlygshöfn og Tungurifi þar sem ljósar sandfjörur er að finna, en stofnanir á vegum ríkisins fari með því gegn dýravelferð og náttúruvernd á svæðinu.

Breytt starfsleyfi brjóti ekki einungis reglugerðir heldur fari það aukin heldur á svig við landslög.