Útliti Bónus-gríssins var breytt fyrir skömmu síðan sem vakti mikil og hörð viðbrögð margra. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, segir að útlitsbreyting Bónus-gríssins hafa verið tímabæra, en erfiða. Hann er hræddur um að Jóhannes Jónsson, oft kenndur við Bónus, hefði ekki orðið sáttur við breytinguna.
Guðmundur er gestur Sigmundar Ernis í nýjasta þætti Mannamáls sem sýndur verður á Hringbraut á morgun, fimmtudag, kl. 19.00 og endursýndur kl. 21.00.
Þið breyttuð Bónusgrísnum, hvað á það að þýða?
„Þetta var nú svo sem ekki mikil breyting. Við vorum aðeins að trimma hann til og tókum í burtu strik sem að mér fannst hafa gleymst að stroka út þegar hann var teiknaður í upphafi.“
Hann segir gamla grísinn þó aldrei hafa pirrað sig neitt sérstaklega.
„Þetta er svona partur af þeirri framþróun sem við erum í núna, stafræn vegferð. Eins og ég segi þá vorum við aðeins að trimma hann til og skerpa á litunum,“ segir Guðmundur enn fremur.
Ég hélt að þetta væri heilagur grís?
„Já, ég er ekkert viss um að Jóhannes heitinn sé neitt sérstaklega ánægður með mig og með þetta. Hann skammaði mig nú stundum sko og sagði „Gummi hættu að fikta í því sem er í lagi.“ Og ég er ansi hræddur um að hann hefði einmitt komið með þá setningu við þetta tilefni,“ segir Guðmundur.
Hann heldur einkunnarorðum Jóhannesar í heiðri: „Þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri 1997, þá fékk ég það í veganesti frá þeim feðgum [Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Jóhannesi] að í fyrsta lagi var ég ekki ráðinn inn til að finna upp hjólið, þeir væru búnir að því. Ég gæfi aldrei eftir lægsta verðið og síðan myndi Bónus skila hluta af bættum ávinningi í innkaupum til neytenda. Og í rauninni er konseptið ekkert annað en það að við erum að koma vörum frá framleiðendum til neytanda með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er.“
Jóhannes var ákveðinn brautryðjandi í rekstri matvöruverslana á Íslandi. Guðmundur ber honum góða söguna: „Hann breytti öllu í matvörubransanum og sem dæmi, fyrir neytendur, að áður en að Bónus var til þá var hlutur ráðstöfunartekna til matarinnkaupa í kringum 22 eða 24 prósent, en með tilkomu Bónus þá lækkaði þetta hlutfall og fór lægst að mig minnir 12 prósent,“ segir Guðmundur.
Hann segir Bónus vera eina bestu kjarabót sem íslenskir neytendur hafa fengið og að meginstef Bónus sé ekki ýkja flókið: „Við erum að koma vörum frá framleiðendum til neytenda með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er.“
Mannamál er á dagskrá á Hringbraut alla fimmtudaga kl. 19.00 og endursýndur kl. 21.00.