Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að samkomulag um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, vera „95 prósent tilbúinn." Á breska þinginu í dag kvaðst forsætisráðherrann vera tilbúin að leita allra mögulegra lausna til þessa að losa um þann hnút sem deilan virðist vera komin í vegna ágreinings sem varða landamærin við Írland. BBC greinir frá.

Rétt rúmir fimm mánuðir eru þar til skilnaður Breta og ESB verður. Theresa May staðfesti á leiðtogafundi Evrópusambandsins að bresk stjórnvöld íhuguðu að lengja aðlögunartímann eftir útgöngu Breta úr ESB. Hún ítrekaði þó á fundinum að enn væri stefnt að því að aðlögunartímanum væri lokið í desember árið 2020. 

Bretar ætla sér að yfirgefa Evrópusambandið þann 29. mars næstkomandi.  Undanfarið hafa Bretar og ESB reynt að ná samkomulagi um fyrirkomulag um landamæragæslu milli Írlands, sem er aðili að ESB, og Norður-Írlands, sem er hluti af Bretlandi. Fyrir leiðtogafundinn í síðustu viku sagðist Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, ekki vera vongóður um að raunverulegur árangur í Brexit-málinu náist á leiðtogafundinum og má segja að hann hafi verið sannspár í því. 

Ekkert verður af fyrirhuguðum auka leiðtogafundi Evrópusambandsríkja í nóvember, en þar stóð til að ræða um, og samþykkja samkomulag um það hvernig útgöngu Breta úr ESB yrði háttað. Tilkynnt var um þetta á fyrrnefndum leiðtogafundi Evrópusambandsins í Brussel í síðustu viku, en ástæðan er sú að May hafði ekkert nýtt fram að færa í tengslum við deiluna um landamæri Norður-Írlands og Írlands þrátt fyrir að skýr krafa hafi verið frá öðrum leiðtogum um slíkt.