Breski innanríkisráðherrann Sajid Javid hefur verið harðlega gagnrýndur í dag eftir að fréttir bárust af því í gær að þriggja vikna gamall sonur Shamimu Begum, hefði látist vegna lungnabólgu í flóttamannabúðum í Sýrlandi, að því er Guardian greinir frá.

Mál hinnar nítján ára gömlu Shamimu hefur vakið heimsathygli undanfarnar vikur en hún hefur ítrekað sagst vilja koma aftur heim frá Sýrlandi, þaðan sem hún fór árið 2015 til að ganga til lið við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið. Hún segist ekkert illt hafa gert með samtökunum en sjái hins vegar ekki eftir því að hafa farið.

Javid hefur meðal annars oft tjáð sig um það hve óvelkomin Shamima er aftur til Bretlands og undir hans stjórn hefur ráðuneytið undanfarnar vikur meðal annars unnið að því að svipta konuna ríkisborgararétti sínum, meðal annars með að fullyrða að hún eigi rétt á ríkisborgararétti í Bangladesh.Fjölskylda Shamimu hafði reynt að búa svo um hnútana að nýfæddum syni Shamimu yrði gert að flytjast til Bretlands.

Skuggainnanríkisráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, Diane Abbott, úr stjórnarandstöðunni segir að dauði barnsins sé „blettur á samvisku ríkisstjórnarinnar.“

„Það er andstætt lögum að gera einhvern ríkisfangslausan,“ segir Abbott. „Og að skilja eftir viðkvæma unga konu og saklaust ungabarn eftir í flóttamannabúðum, þar sem við vitum að tíðni ungbarnadauða er hár, er siðferðislega ámælisvert,“ segir Abbott en hún kallar eftir því að Begum verði gert kleyft að ferðast aftur til Bretlands, þar sem athafnir hennar verði rannsakaðar og hún þá sótt til saka með viðeigandi hætti. 

Þá segir þingmaður Íhaldsflokksins, Phillip Lee að sér sýnist eins og ákvörðunin um Begum hafi verið tekin af popúlískum ástæðum. „Það er augljóst að Begum hefur hræðilegar skoðanir og það að vilja ganga til liðs við Íslamska ríkið er ótrúlegt, en hún var barn og meðlimur samfélags okkar. Ég tel okkur hafa borið siðferðislega ábyrgð á henni og barninu hennar. Þess vegna þykir mér ákvörðunin skjóta skökku við, eins og hún hafi verið tekin af popúlískum ástæðum en ekki gildum sem ég tengi við.“