Þau Lilja Katrín Ólafsdóttir, lögfræðingur, og Daníel Kári Guðjónsson, meistaranemi í afbrotafræði, kynntu niðurstöður rannsóknarverkefna sinna í gær, sem taka á réttindum barna sem eiga foreldra í fangelsum og tengsl fanga við börn sín. Að sögn Lilju Katrínar nálguðust þau málefnið út frá tveimur mismunandi hliðum, annars vegar lagalegri hlið og hins vegar afbrotafræðilegri.

„Þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér á landi og því eru lítil sem engin gögn til um þennan málaflokk. Venjulega höfum við verið að tala um réttindi foreldra sem eru fangar og horfum á þetta út frá sjónarhorni þeirra. En þessi rannsókn er miðuð við réttindi barna, algjörlega óháð réttindum foreldranna,“ segir Lilja.

Hún segir mikinn mun á því hvernig máluefnum barna fanga er háttað hérlendis í samanburði við nágrannalönd.

„Það eru mikið fleiri úrræði til staðar til dæmis á Norðurlöndunum í fangelsinu sjálfu, og innan félagsþjónustunnar eru hagsmunasamtök til staðar,“ segir Lilja, og bætir við:

„En þar sem við erum svo lítil, þá höfum við yfirleitt verið að skoða hvernig þetta hefur gengið á Norðurlöndunum og í kjölfarið gripið til aðgerða,“ segir Lilja.

Daníel tekur undir orð Lilju og segir Ísland aftarlega á merinni þegar kemur að réttindum barna fanga.

Daníel Kári Guðjónsson, afbrotafræðingur
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Við erum ekki að bjóða sömu þjónustu, aðstæður eða úrræði og hin Norðurlöndin eru að gera. Þau eru með allskonar kerfi, stuðningshópa, upplýsingasíður og vefsíður tileinkaðar börnum, sem eru í samstarfi við fangelsismálastofnun þeirra landa. En þetta er ekki til á Íslandi,“ segir Daníel.

Þá segir hann börn fanga gleymast í umræðunni um fangelsismál.

„Það hefur oft verið talað um börn sem hin þöglu fórnarlömb fangelsunar. Þau eru að missa foreldra sína í fangelsi. Hingað til hefur því miður ekki verið nógu mikið pælt í þessu, því það vantar meira fjármagn. Þegar fangelsismálastofnun er með niðurskurðarkröfur á sig er þetta mjög erfitt. Þannig að það þarf í raun að fara í þetta verkefni frá grunni,“ segir Daníel. Þá hafi hvorki Fangelsismálastofnun né aðrir aðilar tölu yfir hversu mörg börn fanga eru á Íslandi.

„Við reyndum að komast að því með því að senda spurningarlista á alla fanga landsins, en þátttakan var svo dræm inn í lokuðu fangelsunum að það tókst ekki. Við getum varpað fram tölum um sirka hversu margir fangar í opnum fangelsum eiga börn, en heildartalan er ekki áreiðanleg,“ segir Daníel.

Spurður segir Daníel ýmislegt hægt að gera til þess að bæta stöðu barna fanga hér á landi.

„Það vantar stærra stuðningsnet. Það vantar upplýsingasíðu til barna eins og þekkist á Norðurlöndum, með upplýsingum um hvar sé hægt að nálgast til dæmis stuðningshópa,“ segir Daníel. Þá séu vandkvæði sem séu einföld í lausnum, eins og til dæmis að útvega leikföng í fangelsin og breyta opnunartímum á Barnakoti.

Lilja Katrín Ólafsdóttir lögfræðingur.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Barnakot er heimsóknarúrræði á Litla Hrauni, en opnunartími þess er frá klukkan hálfeitt til hálffjögur á virkum dögum. Þessi tími gengur mjög illa fyrir börn og foreldra, sem eru flest í skóla eða vinnu á þessum tíma,“ segir Daníel.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir niðurstöður rannsóknanna tveggja hafa komið sér verulega á óvart.

„Eitt af því sem kom mér á óvart var skortur á gögnum, en við munum kynna þetta fyrir stjórnvöldum og ítreka þessar niðurstöður og fylgja þeim eftir,“ segir Salvör. Laga þurfi aðbúnað barna fanga verulega, fyrst og fremst svo þau haldi tengslum við foreldra.

„Í framhaldinu langar okkur að fá sjónarmið barna sem hafa reynslu af því að vera í þessari stöðu, en þetta hefur því miður verið gleymdur hópur eins og niðurstöður skýrslnanna gefa til kynna,“ segir Salvör.

Skýrslurnar tvær í heild sinni má finna á heimasíðu Umboðsmanns barna.