„Nú tveimur sólarhringum eftir ævintýraför mína er ég að drepast í bakinu og með heví sinaskeiðabólgu eftir átökin við snjóruðningana,“ segir Ásdís Auðar Ómarsdóttir, íbúi á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur ítrekað sent kvartanir til borgarinnar vegna óruddra stíga, en Ásdís notar hjól til að komast til og frá vinnu. Hún birtir í dag færslu á vefsvæði Samgönguhjólreiðamanna á Facebook, þar sem hún segir að lítið hafa breyst.

Fréttablaðið tók viðtal við Ásdísi þann 9. febrúar, þar sem hún sagði ástand göngu- og hjólastíga ekki gott eftir að vegir höfðu verið ruddir á morgnana. Eftir stæðu troðfullir göngustígar og umferðareyjur af snjó og að ómögulegt sé að hjóla þar. „Ég er nefnilega ekki sama unglambið og kommentakerfið heldur,“ bætir Ásdís við. Ásdís vísar þar til athugasemda í kommentakerfi Fréttablaðsins: „ég vil, ég vil ... þetta unga fólk er að drepast úr sjálfhverfu“, með vísun til hennar. En Ásdís er 49 ára gömul.

Ásdís segist hafa farið á bíl til vinnu síðustu tvo daga, og skammast sín fyrir það.

„En ég keyrði Háaleitisbrautina í morgun og enn er ekki búið að skafa leið með fram Háaleitisbraut yfir Bústaðaveginn. Þar eru bara enn þessir skaflar, og hærri ef eitthvað er út af götuskafi sem hefur bæst við,“ segir Ásdís.

Ásdís segist hafa sent Reykjavíkurborg aðra ábendingu með vísun í númerið frá því á miðvikudag. „Það er greinilega ekki mikill vilji til að fylgja þeirra fallegu samgönguáætlun eftir.“