Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, tókust á um fyrirhugaða Borgarlínu í Reykjavík í Silfrinu í dag og rökræddu um það hvernig best skuli staðið að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu eftir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Ég hef gagnrýnt það hvernig Borgarlínan hefur verið skipulögð innan Reykjavíkur, það er að segja að taka burt akreinar við Suðurlandbraut og Skothúsveginn og fleira og þrengja þannig að umferð“, sagði Eyþór. „Ég er með Borgarlínu sem er skynsamleg, eins og við sjáum til dæmis í Kaupmannahöfn þar sem hún er hlut af eðlilegri umferð. En þar sem þú tekur akreinar út úr umferðinni fyrir svona þunga lausn ertu í raun að þrengja að almennri umferð.“

„Það er stefnan sem var staðfest í skýrslu COWI að það ætti að breyta ferðamátum með því að þvinga fólk til að taka Borgarlínuna. Ég held að það sé röng nálgun því okkar stefna Sjálfstæðismanna er frelsi og við eigum þá að bæta almenningssamgöngur frekar en að skemma fyrir bílum.“

Dóra sagði það ekki rétt að verið væri að þvinga neinn til að nota almenningssamgöngur með gerð Borgarlínunnar. „Miklu nærri lagi er að fólk hafi verið þvingað til að aka bílum áratugum saman eftir að Sjálfstæðisflokkurinn var hér við völd og innleiddi aðalskipulag einkabílsins á sínum tíma og breytti Reykjavíkurborg í bílaborg. Þetta er nátengt skipulagsmálum.“

„Eyþór boðar bara einhverjar plástranir á vandanum. En okkur er að fara að fjölga um 70.000 manns á höfuðborgarsvæðinu til 2040. Þetta snýst um það. Þetta snýst um að bregðast við því. Það hefur sýnt sig að mjög margar borgir í kringum okkur hafa farið þá leið að bregðast við þessu með því að byggja upp öflugar almenningssamgöngur.“

Eyþór hafnaði því að hann eða flokkur hans boði „plástrun“ og segir þá stefna að umbyltingu, meðal annars með úrbótum á ljósastýringum við gatnamót. Þá vísaði Eyþór því á bug að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þröngvað borgarbúum til að keyra á einkabíl og segir flokkinn hafa verið leiðandi í notkun reiðhjóla á höfuðborgarsvæðinu.