Blóðmerahald á Íslandi hefur verið stundað í bága við lög um tveggja ára skeið, allt frá því að síðasta leyfi Ísteka til blóðtöku rann út árið 2020. Þetta fullyrðir Björn M. Sigurjónsson, lektor við Dania-háskólann í Randers á Jótlandi, en hann furðar sig á að Matvælastofnun hafi leyft blóðmerahald frá 2020.

„Því enginn vafi leikur á að blóðtakan er óleyfileg frá þeim tíma,“ segir Björn í samtali við Fréttablaðið.

Björn verður einn þeirra sem tekur þátt í fundi atvinnuveganefndar Alþingis í dag kl. 10.45 þar sem gestir á vegum dýraverndarsamtaka mæta til að ræða frumvarp Ingu Sælands, formanns Flokks fólksins, um bann við blóðmerahaldi.

Ísland er eina landið í Evrópu sem leyfir blóðtöku úr fylfullum og mylkum hryssum til að gera frjósemislyf svo gyltur gjóti oftar á ári.

Björn segir lög og reglur um dýravernd og hestahald hér á landi hafa breyst oftsinnis á þessari öld svo ef til vill megi virða Matvælastofnun það til vorkunnar að hafa sést yfir þetta atriði. „Mér sýnist stofnunin einfaldlega ekki hafa áttað sig á þessu,“ segir hann.

Þessa sögu megi rekja aftur til 2002 þegar fram kom reglugerð sem veitti Matvælastofnun heimild til að veita fyrirtækjum leyfi til blóðtökunnar. Fyrirtækið Ísteka hafi verið veitt það leyfi til fjögurra ára í senn. Síðasta leyfið hafi verið veitt 2016 og það runnið út 2020.

„Mér sýnist stofnunin einfaldlega ekki hafa áttað sig á þessu“

„En í millitíðinni verða lagaskil,“ segir Björn, „fyrst með setningu nýrra dýraverndarlaga frá 2013 þar sem segir mjög skýrt að ekki megi gera tilraunir eða framleiða lyf úr lifandi dýrum. Ári seinna kom svo ný reglugerð um hestahald sem kveður á um að ekki megi gera aðgerðir á hestum nema í læknisfræðilegum tilgangi, sem tók af allan vafa í þessum efnum,“ segir Björn.

Hann segir málið mjög skýrt, blóðtaka sé ekki lengur leyfisskyld af því að nýjar reglur og lög gera ekki ráð fyrir henni – og það geri hana sjálfkrafa óheimila. „Og það er raunalegt að stofnunin hafi ekki áttað sig á þessu, en hún hefur ríkar skyldur til að framfylgja lögum um dýravernd,“ segir Björn.