Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) skorar á fragtflugfélagið Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að standa við gilandi kjarasamning og nýlega niðurstöðu Félagsdóms og kallar eftir breiðri samstöðu stéttarfélaga landsins gegn „alvarlegri aðför“ að íslenskum vinnumarkaði. Einnig er skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða.

Þann 16. september féll dómur í Félagsdómi þar sem uppsagnir Bláfugls á öllum flugmönnum sem voru félagsmenn í FÍA voru dæmdar ólöglegar. Bláfugl sagði upp ellefu flugmönnum í miðri kjaradeilu í fyrra og réð til sín samsvarandi fjölda af „sjálfstætt starfandi flugmönnum“ á helmingi lægri launum í gegnum starfsmannaleigur að sögn FÍA.

Lára Sif Christiansen, framkvæmdastjóri FÍA, segir í samtali við Fréttablaðið að enginn þeirra flugmanna sem voru reknir ólöglega úr starfi hafi fengið boð um að snúa aftur til vinnu hjá Bláfugli.

„Þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms og gildandi kjarasamning virðast Samtök atvinnulífsins og Bláfugl líta svo á að þau þurfi ekki að fara eftir umræddum dómi og kjarasamningi.“

FÍA segir það með öllu óásættanlegt að svona viðhorf og framganga fái að viðgangast í íslensku samfélagi. Þetta sé alvarleg atlaga að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi.

ASÍ gagnrýndi Bláfugl fyrir nýta sér þjónustu starfsmannaleiga sem var ekki skráð hér á landi og FÍA sakaði fragtflugfélagið um gerviverktöku líkt og má sjá í myndbandinu sem félagið birti síðastliðinn mars.