Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfesta það sem stjórnarandstaðan benti á í vor, þegar hluti ríkisins í Íslandsbanka var seldur.
„Ábyrgðin er ráðherrans. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir verklagi ráðherra við sölu Íslandsbanka. Hún staðfestir það sem við bentum á í vor,“ segir Kristrún.
„Það bendir allt til þess að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi ekki verið fylgt – um hæsta verð og jafnræði. Ráðherra átti að tryggja að þessum markmiðum væri náð, en þar brást hann,“ segir hún.
Kristrún segir sleifarlag ráðherra hafa skaðað hagsmuni ríkissjóðs og að jafnræðis hafi ekki verið gætt. „Fyrir vikið er traust til stjórnvalda og til fjármálakerfisins laskað. Það er alvarlegt,“
Þá segist Kristrún þurfa tíma til að fara yfir skýrsluna og leggja mat á stöðuna. „En það er ljóst að þessu máli er ekki lokið.“
Kristrún segist ætla að tjá sig frekar um skýrsluna á Alþingi síðar í dag. Þingfundur hefst klukkan 15 í dag og fyrst á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnatími.
Ríkisendurskoðun gerði fjölmargar athugasemdir við söluna á Íslandsbanka. Skýrslan var birt í morgun en þar eru gerðar athugasemdir við undirbúning, upplýsingamiðlun, framkvæmd sölunnar og ýmsar ákvarðanir sem teknar voru um að gefa afslátt á lokaverði og hvernig það hafi verið ákveðið hverjir væru hæfir fjárfestar.