Flugmenn Landhelgisgæslunnar hafa verið samningslausir í þrjú ár. Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna Jón Þór Þorvaldsson fór yfir stöðu þeirra í Bítinu í morgun á Bylgjunni en illa hefur gengið að semja því ríkið vill að þeir falli undir álíka kjarasamninga og aðrir ríkisstarfsmenn.

„Að vera þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni og að vera svo í 9 til 5 vinnu hjá einhverri stofnun. Þetta er bara ekki sambærileg vinna að nokkru leyti,“ sagði Jón Þór í viðtalinu.

Hann útskýrði að tólf þyrluflugmenn gengju vaktir og að menn væru í raun alltaf á bakvakt.

Hann sagði ekkert hafa hreyfst í samningaviðræðum og að flugmenn hafi ekki fengið neinar launahækkanir á meðan. Hann sagði það á ábyrgð fjármálaráðherra þótt svo að reksturinn sé á hendi dómsmálaráðherra. Hann sagði Bjarna Benediktsson ekki hafa svarað SMS-i, emaili eða símtali frá honum í þrjú ár.

Hann gagnrýndi það harðlega að ætlast sé til þess að þyrluflugmennirnir gangist við samningi sem svipi til samnings annarra ríkisstarfsmanna þegar vinna þeirra er svo ólík þeirra. Þeir gangi vaktir í sjö daga í röð og séu í vinnunni þegar allir aðrir eru heima.

Hann þvertók fyrir það að flugmennirnir séu að biðja um hærri laun eða nokkuð sem myndi kosta ríkið meira en þau greiða núna. Heldur vilji þeir einfaldlega ekki vera felldir í sama mót og aðrir því þeir eigi ekki heima þar.

Hann sagðist vita til þess að mennirnir eru farnir að horfa í kringum sig og að það væri slæmt því þarna væri búið að fjárfesta mikið í þjálfun og þekkingu flugmannanna.

Í ályktun frá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fyrr á þessu ári var bent á að ríkis­sjóður megi búast við hundruð milljóna auka­kostnaði vegna stór­aukinnar starfs­manna­veltu flug­manna og til­heyrandi tapi á reynslu og þekkingu. Það sé kostnaðar­samt að við­halda stöðlum í leit og björgun og að Land­helgis­gæslan verju hundruðum milljóna í þjálfun á hverjum flug­manni og því muni aukin starfs­manna­velta fljót­lega vega upp á móti af­tengingu kjara við sam­bæri­legar stéttir.

Mynd/FÍA