„Aðsókn til okkar hefur ekki aukist en hún hefur staðið í stað sem er óvanalegt á þessum árstíma, yfirleitt dregur heldur úr á sumrin.“ Þetta segir Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur, sem rekur verkefnið Heimilisfrið, þar sem fólki sem beitir heimilisofbeldi er veitt meðferð, aðspurður um hvort aðsókn hafi aukist í kjölfar seinni bylgju #metoo.

Andrés segist að mestu hafa orðið var við áhrif #metoo á þann hátt að fólk leiti til Heimilisfriðar fyrr en áður. „Það hefur komið til okkar töluvert að fólki, bæði pör og einstaklingar, karlar og konur, sem hafa vangaveltur um það hvort þau séu að beita ofbeldi,“ segir hann.

Andrés segir umræðu um ofbeldi geta orðið til þess að fólk átti sig á því að hegðun þess sé í raun ofbeldi. „Þetta er athyglisverður vinkill í þessari umræðu sem hefur orðið til þess að fólk kemur til okkar og viðrar þessar hugsanir.“

Andrés segir að því fyrr sem gerendur ofbeldis leiti sér aðstoðar, því auðveldara sé að uppræta ofbeldið, jafnvel kæfa það í fæðingu. Hann segir meðferð fyrir gerendur ofbeldis felast í samtalsmeðferð, áfallavinnu og partavinnu. „Það þarf að breyta viðhorfum gerandans, upplýsa og fræða, en meðferðin er jafn breytileg og málin eru mörg,“ segir Andrés.

Meðferðin sem veitt er í Heimilisfriði er mislöng eftir málum, sumum nægja tvö til þrjú viðtöl en dæmi eru um að sami einstaklingurinn hafi komið yfir fjörutíu sinnum í viðtal. „Það þarf mikla þrautseigju, þolinmæði og einbeittan vilja í svona meðferð og margir eru með það, því þau vilja ekki vera á þessum stað,“ segir Andrés.

Kostnaði meðferðar fyrir gerendur er haldið í lágmarki og kostar hvert viðtal hjá Heimilisfriði 3.000 krónur. „Núverandi félagsmálaráðherra hefur verið ótrúlega skilningsríkur varðandi þessi mál og hefur veitt meðferð fyrir gerendur brautargengi,“ segir Andrés, en til dæmis voru þann 3. júní síðastliðinn kynntar tillögur frá aðgerðateymi gegn ofbeldi sem sett var á fót í maí í fyrra af félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra.

Tillögurnar fela í sér hvatningarsamtöl forvarnateyma með geranda, þróun fræðsluefnis, auk þess sem verkferlar lögreglu við að draga úr áhættu á frekari brotum sakborninga verða þróaðir áfram.

Spurður segir Andrés meðferðina sem veitt sé gerendum áhrifaríka og að í flestum tilfellum geti fólk lært að hætta að beita ofbeldi. „Það liggja fyrir rannsóknir sem sýna það og langflestir sem til okkar leita fá ansi mikinn bata,“ segir hann. „Besta fyrirbyggjandi aðgerðin gegn ofbeldi er að hjálpa gerendum.“