Á fyrstu níu mánuðum ársins bárust 795 til­kynningar um heimilis­of­beldi til lög­reglu og 9.792 til­kynningar til barna­verndar­nefnda. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Ríkis­lög­reglu­stjóra.

Til­kynningum til barna­verndar­nefnda á fyrstu níu mánuðum ársins fjölgaði um 2,3 prósent frá sama tíma­bili í fyrra. Aukning var um 17 prósent frá sama tíma­bili árið 2019.

Í fyrra voru til­kynnt alls 1.049 mál tengd heimilis­of­beldi sem er um 16 prósent fleiri en meðal­tal síðustu þriggja ára þar á undan.

Um 100 við­töl í mánuði eru tekin við ger­endur of­beldis hjá Heimilis­friði, með­ferðar­stöð fyrir þau sem beita of­beldi í nánum sam­böndum.

Mikil að­sókn í vef­gátt 112

Senn lýkur sér­stakri 12 mánaða langri vitundar­vakningu lög­reglunnar gegn heimilis­of­beldi en heilt ár er liðið frá því að ríkis­lög­reglu­stjóri opnaði sér­staka vef­gátt 112 vegna of­beldis. Í til­kynningu ríkis­lög­reglu­stjóra segir að gáttinni sé ætlað að auðvelda þolendum, ger­endum og að­stand­endum að leita sér að­stoðar.

Að meðal­tali 235 ein­staklingar hafa heim­sótt síðuna á dag. Þá hefur heim­sókn í vef­gáttina leitt 600 sinnum til net­spjalls við við­bragðs­aðila.

„Þessi fjöldi heim­sókna er tals­vert meiri en búist var við og sýnir að þörfin fyrir úr­ræði sem þetta, til að fræðast um og til­kynna heimilis­of­beldi, er mikil,“ segir í til­kynningunni. Þá sýnir hinn mikli fjöldi heim­sókna að margir þori ekki að hringja en séu frekar reiðubúin í að eiga sam­skipti í gegnum netið.

Jafn­framt kemur fram að al­gengt sé að þau sem heim­sæki vefinn leiti sér upp­lýsinga um and­legt of­beldi og í senn er eitt mest lesna efni síðunnar sér­stak­lega beint að ungu fólki.

Fólk er á­fram hvatt til að leita sér að­stoðar undir hvatningar­orðum vitundar­vakningarinnar: Segðu frá – 112, sér í lagi þegar nú nú sér fyrir endann á Co­vid-19 far­aldrinum. Þá mun ný út­gáfa af 112 appinu koma út á næstunni sem kemur til með að auð­velda fólki sem gæti átt erfitt með að lýsa að­stæðum sínum í síma að miðla upp­lýsingum til neyðar­varða.

Of­beldi sam­fé­lags­legur harmur

Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra og Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra skipuðu að­gerða­t­eymið til að stýra og sam­ræma vinnu við út­færslu að­gerða gegn of­beldi. Það teymi skipuðu Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir ríkis­lög­reglu­stjóri og Ey­gló Harðar­dóttir fyrrverandi fé­lags- og hús­næðis­mála­ráð­herra.

Í tilkynningunni ríkislögreglustjóra segir hún vef­gáttina mikil­vægt skref í átt að því að auð­velda fólki að leita sér að­stoðar: „Heimilis­of­beldi og of­beldi gegn börnum er ekki einka­mál sem rúmast innan frið­helgi heimilisins, heldur sam­fé­lags­legur harm­leikur sem við verðum að stöðva.“

Þá hafi vef­gáttin komið sér sér­stak­lega vel í Co­vid-19 far­aldrinum: „Þótt nú sjái fyrir endann á bar­áttunni gegn Co­vid-19, heldur bar­áttan gegn heimilis­of­beldi og of­beldi gegn börnum á­fram. Því er einkar mikil­vægt að vef­gátt 112 gegn of­beldi hefur fengið varan­legan bú­stað hjá Neyðar­línunni og verður þróuð á­fram í takt við nýjustu upp­lýsingar og þekkingu,“ segir Sig­ríður Björk.

Þá er einnig vitnað í Áslaugu Örnu í tilkynningu ríkislögreglustjóra: „Það er skylda okkar sem erum kjörin á þing að berjast fyrir betra sam­fé­lagi og það á líka við um að líta ekki undan of­beldi eða á­reitni og leggja okkar af mörkum til að bæta um­hverfi þol­enda.“

Hún segir að mikil vakning hafi átt sér stað varðandi of­beldis­mál og ekki síst varðandi of­beldi í nánum sam­böndum eða þar sem börn eiga um sárt að binda.

„Unnið hefur verið að um­bótum á lög­gjöf, bættu verk­lagi við með­ferð of­beldis­mála innan réttar­vörslu­kerfisins, aukinni vernd fyrir þol­endur, ein­faldari með­ferð nálgunar­banns og auknum skilningi á þörfum þol­enda brotanna. Margt hefur vissu­lega á­unnist en þessi mála­flokkur mun á­fram njóta okkar fyllsta á­huga og at­hygli,“ segir Áslaug Arna jafnframt í tilkynningu ríkislögreglustjóra.