John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Donald Trump, Bandaríkjaforseta, segir að á fundi sínum með Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi einræðisherrann lofað forsetanum að landið myndi ekki skjóta upp annarri eldflaug, að því er fram kemur á vef Guardian.

Var Bolton spurður út í þær gervitunglamyndir sem birst hafa undanfarna daga frá Norður-Kóreu en myndirnar sýna aukna virkni á að minnsta kosti tveimur herstöðvum þar sem Norður-Kóreumenn hafa áður skotið upp slíkum eldflaugum.

Sjá einnig: Segja Norður-Kóreumenn undirbúa eldflaugaskot

Aðspurður tók Bolton undir með Bandaríkjaforseta, en Trump sagði fyrr í vikunni að hann yrði „afar vonsvikinn“ ef N-Kóreumenn myndu skjóta upp eldflaug að nýju og Bolton segir að Bandaríkin búist við flestu og taki loforðum Kóreumanna af varfærni.

„Mistök sem fyrrverandi Bandaríkjastjórnir hafa jafnan gert er að gera ráð fyrir því að Norður-Kóreumenn muni heiðra þau loforð sem þeir hafa gefið. Norður-Kórea hefur lofað að minnsta kosti fimm sinnum að hætta við að þróa kjarnavopn síðan 1992 og virðast aldrei geta það.

Ég held að Kim Jong-Un viti algjörlega hvað forsetanum finnst og hvaða markmið hann hefur sett sér að ná,“ segir Bolton.

Fundurinn á milli Trump og Kim, þótti ekki heppnast sem skyldi en Trump neitaði að verða við óskum einræðisherrans um afnám allra refsiaðgerða Bandaríkjanna gegn N-Kóreu, þar sem landið hefði ekki staðið við allar sínar skuldbindingar um afkjarnorkuvopnavæðingu. Var þetta í annað skiptið sem leiðtogarnir tveir hafa hist síðan þeir hittust í fyrsta sinn í Singapore í júní í fyrra.