„Baldur Þórhallsson hefur fyrir löngu tekið sér stöðu sem einn helsti stríðshaukur landsins. Hann heyrir til þeim hópi fólks sem lítur á það sem hálfgerðan álitshnekki fyrir Ísland ef erlend ríki standi ekki í röðum og vilji sprengja okkur í loft upp,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, sem fer fyrir Samtökum hernaðarandstæðinga.

Stefán segir Baldur sjá alls konar ógnir, öðrum ókunnar.

„Hugmyndir Baldurs um hernað virðast helst fengnar úr borðspilum og gömlum stríðsmyndum, með þessari skringilegu hugmynd um litla varnarsveit sem haldi öflugum óvinaflota í skefjum á meðan beðið er eftir liðsauka,“ segir Stefán.

Baldur, sem er prófessor í stjórnmálafræði, lýsti þeirri hugmynd í Fréttablaðinu í gær að brýnt væri að kalla til fast erlent varnarlið, jafnvel skandinavískt, sem gæti hindrað skemmdarverk eða brugðist við innrás áður en stærra lið aðildarríkja Íslands kæmi til bjargar.

„Eitt skemmdarverk getur valdið mjög miklum skaða í litlu ríki,“ sagði Baldur.

„Öryggi Íslands verður best tryggt með því að beina orku og fjármunum að þeim raunverulegu öryggisógnum sem að okkur steðja, svo sem á sviði náttúruvár, tölvuglæpa og sjúkdóma, í stað þess að flækja sig í hernaðarkerfi annarra ríkja. Herstöð er skotmark, var sagt hér fyrr á árum. Það á enn þá við,“ segir Stefán. Um það mat prófessorsins að slegið gæti á ágreining ef herliðið kæmi frá Norðurlöndunum, segir Stefán að vangaveltur
um norrænt herlið hér séu „óraunsæjar með öllu“.