Ragnar Aðal­steins­son, lög­maður Erlu Bolla­dóttur segist alveg eins hafa átt von á þeirri niður­stöðu sem varð ofan á í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun, þar sem fallist var á kröfu Erlu um að fella úr gildi úr­skurð endur­upp­töku­nefndar um hennar þátt í Guð­mundar- og Geir­finns­málum.

„Það komu fram hlutir við með­ferð málsins sem vöktu vonir mínar um að málið færi eins og það fór. Ég varð þess bæði var að dómarinn var vel að sér og vel lesinn í málinu og það sem sum vitni sögðu var já­kvætt fyrir Erlu. Jafn­framt tók dómarinn sér langan tíma til að kveða upp dóminn, sem benti til þess að hann tæki málið al­var­lega og myndi leggja allt sitt í að kveða upp dóm. Þá aukast líkur á að dómar verði góðir og réttir,“ segir Ragnar.

Sögur á sveimi um ríkisstjórnina

Að­spurður um fram­haldið segist Ragnar binda á­kveðnar vonir við ríkis­stjórnina:

„Það eru ein­hverjar sögur á sveimi og hefur sést í blöðum að ríkis­stjórnin sé að fara yfir öll þessi mál í heild sinni. Ef hún beitir sér af skyn­semi þá lýkur hún öllum málunum með sam­komu­lagi á næstu dögum og vikum,“ segir Ragnar og bætir við: „Það er engin á­stæða fyrir ríkið til að halda á­fram að tapa þessum málum sér til bæði skammar og leiðinda.“

Fréttablaðið/Valli

Að ó­breyttu fer mál Erlu þó fyrir endur­upp­töku­dóm­stól.

„Munurinn er auð­vitað að áður vorum við með endur­upp­töku­nefnd sem var stjórn­sýslu­nefnd með bæði hafði bæði rann­sóknar- og leið­beiningar­skyldu. Nú erum við allt í einu komin fyrir dóm­stól þar sem réttar­farið er með allt öðrum hætti og erfiðari fyrir fólk sem leitar réttar síns að mínu viti,“ segir Ragnar og vísar til þess að þyngri sönnunar­byrði sé al­mennt fyrir dóm­stólum.

„En endur­upp­töku­dómur hlýtur auð­vitað að taka mið af þessum dómi sem hér var kveðinn upp í dag, því hann er raun­veru­lega að segja að það eigi að endur­upp­taka málið. Þannig að vonandi skilst dómurum í endur­upp­töku­dómi hver skila­boðin eru til þeirra.“

„Það er ótrúlega góð tilfinning dómari hlusti á mig, taki mark á mér, og dæmi svo mér í vil. Þetta er bara, ég á bara eftir að ná utan um þetta at­riði.“

Magnað að labba út úr dómsal sem sigurvegari

Sjálf segist Erla enn eiga eftir að ná utan um það sem gerst hefur.

„Það er ótrúlega góð tilfinning að dómari hlusti á mig og taki mark á mér, og dæmi svo mér í vil. Þetta er bara, ég á bara eftir að ná utan um þetta at­riði,“ segir Erla sem hefur ekki átt því að venjast að dóm­stólar séu henni hlið­hollir.

„Fyrir daginn í dag þá var stærsti á­fanginn að þegar Lands­réttur úr­skurðaði að ég mætti kalla vitni í málinu mínu,“ segir Erla en þá hafði sá dómari sem áður var með mál hennar hafnað kröfu hennar um að fá að leiða vitni. Lands­réttur snéri þeim úr­skurði svo við og Erlu heimilað að leiða vitni, þar á meðal lög­reglu­menn sem rann­sökuðu málið á sínum tíma.

„Allt í einu var verið að sam­þykkja eitt­hvað sem ég vildi og hafði þörf fyrir. Það var stærsti á­fanginn sem ég hafði upp­lifað þangað til í dag,“ segir Erla glöð í bragði.

Hún segir til­finninguna hafa verið svipaða þegar þau hafi verið kölluð til við­tals við starfs­hóp innan­ríkis­ráðu­neytisins sem rann­sakaði málið árið 2013.

„Það var í fyrsta skipti sem ég upp­lifði þetta. Þá allt í einu var ein­hver að hlusta á mig. Það var rosa­lega skrítin til­finning og mér leið alveg eins og ég væri að gera eitt­hvað af mér,“ rifjar Erla upp.

Framburðir um ferð til Keflavíkur ráðgáta

Í forsendum dóms héraðsdóms frá í morgun segir að mat endurupptökunefndar á áliti réttarsálfræðinga og skýrslum sem þeir gáfu um álit sitt, hafi ekki verið forsvaranlegt.

Byggt var á niðurstöðum réttarsálfræðinganna í málum annarra sakborninga en í máli Erlu dugði ekki álit þeirra um að játningar Erlu væru óáræðanlegar.

Í dómi Héraðsdóms segir að niðurstöður réttarsálfræðingana, „hljóti að hafa þýðingu við mat á því hvort sönnunargögn hafi hér verið rangt metin, eins og gilt hafi um aðra þætti málsins.“ Þá segir einnig að sakfelling Erlu fyrir fyrir rangar sakargiftir, verði vart byggð á sama grunni og dómurinn yfir henni árið 1980 gerði, en þar er byggt á játningum um samantekin ráð sakborninga um að bera rangar sakir á menn, færi grunur að beinast að þeim sjálfum.

„En af hálfu endurupptökunefndar virðist ekki gerð viðhlítandi grein fyrir þýðingu þessa.“

Erla verði að njóta vafans

Þá fullyrðir dómurinn að framburðir Erlu og annarra um ferð til Keflavíkur og nafngreinda menn þar, séu ráðgáta, það er að segja hvernig þær frásagnir urðu til og tóku svo breytingum.

„Telur dómurinn þó að þegar á allt er litið þá sé málum nú svo komið að stefnandi verði að njóta vafans,“ segir í dóminum.