"Skýrasti dómurinn um árangur fjármálaráðherra við þessa sölu hlýtur að vera sá að allt ferlið strandaði í kjölfarið," segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Óseldur hlutur ríkisins í bönkunum er metinn á 369 milljarða króna, samkvæmt svari frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra vegna fyrirspurnar Þorbjargar Sigríðar. Einnig kemur fram í svari Bjarna að tillögur um breytt fyrirkomulag í tengslum við sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi ekki verið bornar undir ríkisstjórn á þessu stigi.

„Gert er ráð fyrir að eftir að áform um lagabreytingar og drög að frumvarpi hafa verið lögð fram til kynningar og samráðs með vanalegum hætti í samráðsgátt stjórnvalda verði tillaga um framlagningu frumvarps á Alþingi lögð fyrir ríkisstjórn,“ segir í svari Bjarna.

Ríkið fer með eignarhlut í Íslandsbanka og Landsbankanum, auk Sparisjóðs Austurlands. Ef markaðsvirði Íslandsbanka er notað í stað hlutdeildarvirðis var samanlagt virði eignarhlutanna í bönkunum þremur um 369 milljarðar í lok júní 2022.

Þorbjörg segir áhugaverðast við svör Bjarna að ekki virðist einhugur um frekari sölu. Ekki síst þar sem fjárlagafrumvarpið geri ráð fyrir 76 milljarða tekjum af sölu.

„Sala myndi draga verulega úr lánsþörf á næsta ári,“ segir Þorbjörg.

„Vaxtagjöld kosta okkur sem samfélag gríðarlegar upphæðir og þann kostnað er ekki hægt að nýta í brýn verkefni. Þessi svör finnst mér bera með sér að frekari sala er í uppnámi. Það er skýrasti dómurinn um árangur fjármálaráðherra í þessu ferli,“ segir Þorbjörg.