Helga Björg Ragnars­dóttir, skrif­stofu­stjóri skrif­stofu borgar­stjóra, lýsir reynslu sinni af því sem hún kallar „á­rásir“ og stöðugar á­sakanir Vig­dísar Hauks­dóttur, borgar­full­trúa Mið­flokksins, gegn sér í langri færslu á Face­book. Hún segir málið hafa verið skað­legt fyrir heilsu sína og hennar fjöl­skyldu.

Þær Helga Björg og Vig­dís hafa um langt skeið sakað hvor aðra um ein­elti og trúnaðar­brot. „Þetta hafa verið harka­legar á­rásir sem hefur verið erfitt að upp­lifa, ekki síst þar sem engar leiðir eru til úr­bóta. Ég lét mig því hafa þetta og sat lengst af þegjandi undir þessum á­rásum og fram­komu,“ segir Helga Björg í færslu sinni um málið í dag. Hún segir að sumar­frí hennar hafi varpað nýju ljósi á starfs­um­hverfið og segist ekki geta lengur setið á sér án þess að bregðast opin­ber­lega við um­mælum Vig­dísar upp á síð­kastið.

„Ég hef brugðist við með því að setja fram form­legar kvartanir en ekki haft erindi sem erfiði þar sem borgar­full­trúinn hefur komið sér undan þátt­töku í rann­sóknum á fram­komu sinni og því ekki fengist niður­staða í málin,“ segir hún. „Þessar á­rásir borgar­full­trúans og úr­ræða­leysi kerfisins við að takast á við þær voru von­brigði og tóku á en í því fólst á­kveðin niður­staða sem ég þurfti að sætta mig við. Mér fannst það vont en það vandist, merki­legt nokk.“

Á annað hundrað færslna um Helgu

Helga Björg lýsir þá því hvernig Vig­dís hafi í upp­hafi þessa árs tekið upp á því að krefjast þess að Helga sæti ekki fundi sem hún sæti, eins og greint hefur verið frá í fjöl­miðlum. Eftir að fjar­funda­búnaður var tekin til notkunar vegna Co­vid-19 hafi mót­mæli Vig­dísar falist í munn­legum at­huga­semdum og bókunum „auk þess sem borgar­full­trúinn snýr í mig baki, eins og hún hefur í­trekað fjallað um sjálf opin­ber­lega,“ segir Helga.

„Ég hef lagt upp úr því að fara að leik­reglum, svara ekki lygum og rang­færslum borgar­full­trúans opin­ber­lega á meðan borgar­full­trúinn vílar ekki fyrir sér að fara fram gegn mér með ó­sannindi og hreinar lygar. Síðast í bókunum í fundar­gerð borgar­ráðs í gær. Ég hef talið mér trú um að það sjái allir í gegnum lygarnar og að fólk trúi því ekki sem hún setur fram en elja hennar og seigla í að við­halda rang­færslunum hafa orðið til þess það eru farnar að renna á mig tvær grímur um það,“ heldur Helga á­fram.

Hún segir Vig­dísi þannig til dæmis hafa sagst eiga inni hjá Helgu af­sökunar­beiðni vegna þess að hún hafi sent Vig­dísi bréf þar sem hún eigi að væna hana um trúnaðar­brot. „Hið rétta er að ég hef aldrei skrifað borgar­full­trúanum bréf,“ segir Helga. „Hún hefur haldið því fram að ég hafi ráðist að sér í fjöl­miðlum. Hið rétta er að það var fyrst í sumar sem ég tjáði mig á Face­book um þetta á­stand. Aftur á móti hafði borgar­full­trúinn birt opin­ber­lega á annað hundrað færslur, bókanir, til­lögur og erindi, þar á meðal trúnaðar­merkt erindi með ein­eltis­kvörtun minni til Reykja­víkur­borgar, á Face­book-síðu sinni og brotið þannig á frið­helgi einka­lífs míns. Ég í­treka; á annað hundrað.“

„Það er skaðlegt að kjörnir fulltrúar þurfi ítrekað að verjast árásum borgarfulltrúans á mig og annað starfsfólk borgarinnar í stað þess að geta einbeitt sér að því að vinna að góðum málum í þágu borgarbúa, eins og þau eru kjörin til. Það er líka skaðlegt fyrir mig, fjölskyldu mína og mína heilsu,“ heldur hún þá áfram.

Þannig segir Helga nú vilja tjá sig um málið opin­ber­lega „en niður­staða mín nú er að ég get ekki setið þögul undir þessum á­rásum því þetta snýst, því miður, ekki bara um mig. Ef svona pólitík fær að virka ó­á­reitt og kerfið á engin svör við henni, þá óttast ég að þetta geti verið byrjunin á því sem koma skal.“

Sumarfrí er magnað fyrirbæri. Við það að stíga út úr amstri dagsins bæði heima fyrir og í vinnu næst ákveðin fjarlægð á...

Posted by Helga Björg Ragnarsdóttir on Friday, 14 August 2020