Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hefur gert starfslokasamning við Hörð Áskelsson eftir 40 ára starf sem í kirkjunni. Ber Herði og Einari Karli Haraldssyni, formanni sóknarnefndar, ekki saman um tildrög starfslokanna.

Pétur Húni Björnsson, söngvari og þjóðfræðingur, sem kveðst hafa gengið til liðs við Mótettukórinn fyrir um fimmtán árum ber Einar Karli og eiginkonu hans og sömuleiðis séra Maríu Ágústsdóttur ekki góða sögu vegna framgöngu þeirra gegn réttindabaráttu samkynhneigðra.

„Á þennan dásamlega tíma sem ég átti með Mótettukórnum bar einn ískyggilegan skugga, en það var þegar til stóð að setja lög um staðfesta samvist samkynhneigðra,“ segir Pétur Húni í opinni færslu sinni á Facebook. „Þá tóku þau sig til hjónin Einar Karl Haraldsson og Steinunn Jóhannesdóttir, bæði nátengd Hallgrímssöfnuði, og hófu orrahríð gegn þessu frumvarpi í blaðagreinum.“

Kórinn hunsaði prestinn

Að sögn Péturs Húna er honum sérstaklega minnistætt að Steinunn hafi haldið því fram að forsenda þess að samkynhneigðir vinir hans mættu eiga þess kost að vera þeir sjálfir og giftast væri að hún afsalaði sér því að geta talist eiginkona mannsins síns.

„Mér er reyndar drullusama um hvernig Steinunn skilgreinir sig gagnvart sjálfri sér, karlinum sínum eða nokkrum öðrum. Ég vil hins vegar leggja ýmislegt í sölurnar til að vinir mínir eigi þess kost að njóta sannmælis og fá að vera þeir sjálfir,“ skrifar Pétur Húni.

Þá segir Pétur Húni að „firringin og sturlunin“ í þessum málflutningi hafi kannski kjarnast í því þegar sr. María Ágústsdóttir hafi í messu í Hallgrímskirkju predikað einarðlega gegn áðurefndri lagasetningu og uppskorið „fullkomna og algera fyrirlitningu og hunsun“ kórsins.*

„Þegar sr. María gekk fram og stillti sér upp við útidyr til að taka í hönd kirkjugesta eins og vera ber, en þá gerðist það að fremstir í fylkingu voru samkynhneigðir kórfélagar sem neituðu að taka í hönd hennar og sögðu henni að skammast sín. Í kjölfarið komum við hin og hunsuðum hana, réttilega. Þetta var um það bil fullkomnasta andstaða "preaching to the choir" sem ég hef upplifað,“ skrifar Pétur Húni.*

Pétur Húni rekur vinskap sinn við Hörð Áskelsson og kveðst hljóta að taka málstað hans. „En ég er tilbúinn að hlusta á öll mótrök og forsendur þess að hann var látinn fara, tveimur árum fyrir starfslok. Ekki í orðskrúði almannatengsla heldur hreint og beint,“ skrifar Pétur Húni sem lýkur færslu sinni með fúkyrðum gegn formanni sóknarnefndar og eiginkonu hans.

Segir Hörð hafa hafnað „heiðurssamningi“

Einar Karl Haraldsson lýsti í færslu á Facebook-síðu Hallgrímskirkju í gær sinni sýn á því hvernig starfslok Harðar Áskelssonar bar að. Vísar Einar Karl til bréfs Harðar frá 1. maí till Listvina þar sem segir að „forsvarsfólk Hallgrímskirkju hefur kosið að víkja mér úr starfi kantors Hallgrímskirkju með starfslokasamningi, sem ég get ekki annað en sætt mig við,“ eins og Einar Karl vitnar orðrétt í bréf Harðar.

„Af þessu tilefni er rétt að taka fram að Hörður lagði sjálfur fram ósk um hreinan starfslokasamning, eftir að hafa hafnað „Heiðurssamningi Hallgrímskirkju“, sem hann samþykkti í lok janúar síðastliðinn að lögmaður kirkjunnar og formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna ynnu að,“ skrifar Einar Karl.

Kveður Einar Karl óvissu hafa verið um organistastörf í Hallgrímskirkju. Hörður „leikið mjög takmarkað“ á orgelið þar undanfarin þrjú ár.

„Framkvæmdastjórn sóknarnefndar hefur ítrekað gengið eftir því hvað við tæki þegar níu mánaða tímabili Harðar Áskelssonar á listamannalaunum lyki, enda nauðsynlegt að gera ráðstafanir í tíma og binda endi á þá óvissu sem hefur verið ríkjandi varðandi organistastörfin,“ skrifar Einar Karl. Sóknarnefnd hafi ákveðið að á meðan tekna af ferðafólki njóti skuli aðeins vera eitt stöðugildi organista við. Björn Steinar Sólbergsson hafi verið í 70 prósent hlutfalli organista á áðurnefndu tímabili en Hörður í 33 prósent starfi sem kórstjóri.

Hörður Áskelsson kantor ásamt Mótettukórnum í Hallgrímskirkju.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Þá segir Einar Karl að Hörður hafi sagt sér á fundi 27. janúar síðastliðinn að hann hefði ekki áform um sinna störfum sem organisti kirkjunnar frá 1. júni því heilsa hans leyfði ekki orgelleik á því stigi sem krefjast yrði af organista í Hallgrímskirkju. Hörður hafi gefið sér sem formanni sóknarnefndar heimild til þess að vinna með hugmynd sem lýst hafði verið fyrir Herðir í nóvember síðastliðnum um launa- og verkefnasamning „Heiðurslaun Hallgrímskirkju“. Þessi samningur hafi átt að gefa Herði „listrænt frelsi, tóm og aðstöðu til þess að vinna með kórum sínum að verkefnum sem honum eru hugleikin,“ skrifar Einar Karl.

Að sögn sóknarnefndarformannsins átti þessi „heiðurssamningur“ að vera „til marks um virðingu og þökk sóknarinnar fyrir stórmerk störf HÁ í þágu Hallgrímskirkju um nærri fjögurra áratuga skeið og margverðlaunað og viðurkennt starf hans í framþróun kirkjutónlistar á Íslandi. Samningurinn hefði orðið einstakur í sinni röð í kirkjusögunni.“

Nánar lýsir Einar Karl inntaki heiðurssamningsins þannig að honum fylgdu greiðslur í samræmi við Heiðurslaun listamanna frá Alþingi til tveggja ára. Ennfremur sérstakir styrkir til frjálsrar ráðstöfunar Harðar persónulega vegna þriggja uppfærslna á stórvirkjum kirkjutónlistarsögunnar.

„Um leið væri um starfslok hans sem organista að ræða og hann væri án stjórnunar- eða sérstakrar vinnuskyldu við kirkjuna á tímabili heiðurslauna. Engin takmörk voru lögð á vinnu hans að öðru leyti með Mótettukór Hallgrímskirkju, Listvinafélagi Hallgrímskirkju og Schola cantorum,“ rekur formaður sóknarnefndar.

Að endingu segir Einar Karl að Herði hefði verið sómi af slíkum heiðurssamningi að margra dóma. „En úr því að hann kaus að hafna honum og hverfa af vettvangi Hallgrímskirkju, er vonandi að hugmyndin nýtist Alþingi til þess að veita honum heiðurslaun listamanna þegar starfslokasamningnum við Hallgrímskirkju sleppir eins og á hefur verið bent,“ segir í færslu Einar Karls Haraldssonar.

*Felldi út ummæli um séra Maríu

*Vegna frásagnar Péturs Húna Björnssonar hér að ofan skal tekið fram að hann hefur nú tekið þann hluta skrifa sinna sem varða séra Maríu Ágústsdóttur út úr færslunni á Facebook. Gerði Pétur Húni það eftir að séra María benti á að hún hefði ítrekað beðist afsökunar á orðum sínum umræddan dag sem hann vísaði til.

„Ég hafði starfsaðstöðu í Hallgrímskirkju sem héraðsprestur um árabil og fékk ávallt þakkir fyrir mína þjónustu þegar ég leysti presta kirkjunnar af og átti góð samskipti við alla innanhúss, tel ég. Svo læt ég örfá orð falla um „hefðbundinn skilning“ á hjónabandinu í samhengi við annað í umræddri prédikun og fékk það óþvegið á eftir. Sérstaklega eru mér minnistæð orð eins kórfélaga sem hreytti út úr sér: „Þú ert kjáni!“. Sjálfsagt var það rétt hjá honum,“ segir í athugasemd sem María ritar við færslu Péturs Húna.

Kveðst María vel geta endurtekið fyrirgefningarbeiðni sína til allra hlutaðeigandi „enda hef ég löngu séð ljósið og fellst alls ekki á viðhorf sem gengisfella manneskju vegna kynhneigðar hennar,“ skrifar hún. Já, ég var kjáni, ég viðurkenni það fúslega, en plís, gefið mér sjens á að hætta að vera kjáni og látið liðið vera liðið,“ segir hún.

Í svari til Maríu segist Pétur Húni hafa verið að lýsa „andrúmsloftinu sem ríkti á þessum tíma,“ eins og hann segir. Umræddur atburður gerðist árið 2010. „Ég vissi því miður ekki af afsökunarbeiðni þinni en skal glaður breyta færslunni minni. Fyrirgefðu mér að valda þér óþægindum, ég vissi ekki betur.“