Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, segir alvarlega ágalla vera á talningu atkvæða í sínu kjördæmi. Hann segir að umboðsmönnum lista Pírata í kjördæminu ekki hafa verið gert viðvart um endurtalninguna.
„Ég sá það fyrst í fjölmiðlum og óskaði strax eftir því að talningu yrði frestað þangað til við kæmum á talningarstað. Formaður kjörstjórnar varð ekki við þeirri kröfu og var endurtalning hafin þegar ég kom á staðinn,“ segir Magnús í færslu á Facebook-síðu sinni.
Magnús segir að kjörgögnin hafi ekki verið innsigluð eftir lok talningarinnar heldur hafi þau verið skilin eftir í sal í Hótel Borgarnesi þegar talningarfólk fór heim.
„Varsla og eftirlit á þeim tíma, sem leið frá lokum talningar og fram að endurtalningu, þegar starfsfólk mætti aftur liggur ekki fyrir,“ segir Magnús. „Hótelið var opið og þar mátti sjá gesti þegar endurtalning fór fram.“
Ekki aðeins varð breyting á fjölda atkvæða hjá framboðunum, segir Magnús, heldur varð einnig breyting á fjölda ógildra og auðra atkvæða sem voru taldir.
„Svona vinnubrögð í lýðræðislegu ferli kosninga og talningar eru algjörlega óásættanleg,“ segir Magnús.