Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir allt tal um niðurskurð fjárframlaga til Landspítalans vera í besta falli misskilningur. Landspítalinn hafi þurft að bregðast við hallarekstri til þess að hagræða eftir að rekstur spítalans hafi farið fram úr „þeim stórauknu heimildum sem stofnunin hefur fengið undanfarin ár á fjárlögum.“

Fjárframlög til reksturs á Landspítalanum árið 2020 hækka um 4,8 prósent að sögn Svandísar sem segir að í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi framlög til spítalans verið aukin um 12 prósent á föstu verðlagi. Ríkisstjórnin hafi lagt mikla áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið með auknum fjárframlögum til rekstrar og uppbyggingar á kjörtímabilinu.

Mikið hefur verið fjallað um bráðamóttaka Landspítalans undanfarið vegna brotalama í tengslum við rekstur spítalans og máls Páls Heimis Páls­sonar. Páll var sendur heim af bráða­mótt­töku spítalans í nóvember vegna álags á deildinni. Hann lést skömmu síðar. Svipaðar harmsögur eru því miður of algengar og hefur ríkisstjórnin verið gagnrýnd fyrir að koma með tímabundnar lausnir í staðinn fyrir raunverulegar úrbætur.

Í desember 2018 gerði embætti landlæknis úttekt á stöðu bráðamóttökunnar ásamt því að leggja fram tillögur um úrbætur. Heilbrigðisráðuneytið segist hafa lagt allt kapp á að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem embætti landlæknis lagði til í úttektinni. Í lok ársins 2019 kynnti heilbrigðisráðuneytið áform um að lækka greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu.

„Aðgerðirnar hafa skilað árangri og bíða nú nokkru færri einstaklingar á deildum spítalans vegna útskriftarvanda en þegar úttektin var gerð,“ segir í tilkynningu sem Vinstri grænir sendu frá sér í dag.

Ríkisstjórnin hafi fjölgað hjúkrúnarrýmum, dvalarrýmum og endurhæfingarrýmum, varið 130 milljónum króna í að styrkja mönnun í heimahjúkrun og auka þjónustu. Til standi að leggja til 200 milljónir króna til viðbótar til að efla þjónustu heilsugæslunnar. Einnig opnaði sjúkrahótel síðasta sumar.

Svandís segir ótvírætt að allar framantaldar aðgerðir séu til þess fallnar að draga úr álagi á Landspítalanum. Mönnunarvandinn sé meðal stórra verkefna og enn frekari efling heilsugæslunnar sömuleiðis.