Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram áform að frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta. Samkvæmt því verður varslan ekki refsiverð og mun lögregla ekki geta gert efni til einkanota upptækt hjá fullorðnum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segist fagna áformum Svandísar „á síðasta degi framlagningar“. Hafi hann og þingflokkurinn búist við að sjá þetta koma fram fyrr.

Píratar lögðu fram frumvarp um afglæpavæðingu í sumar eftir heitar umræður þar sem þung orð voru látin falla. Málið var fellt með 28 atkvæðum stjórnarliða og Miðflokks gegn 18, þrátt fyrir að afglæpavæðingu mætti finna í stjórnarsáttmálanum og yfirlýstum stefnum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.

Copy-paste

„Þetta er copy-paste frá okkur. Lítur bara mjög vel út,“ segir Björn Leví um þau áform sem finna má í samráðsgátt stjórnvalda. Segir hann öruggt að þingflokkur Pírata muni styðja frumvarpið.

„Þetta er mannréttindamál sem snýst um að fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda sé ekki lengur skilgreint sem glæpamenn,“ segir hann um hvers vegna málið skipti Pírata miklu máli. Hann telur víst að lagabreytingarnar, gangi þær eftir, verði stór breyting fyrir þann hóp sem ánetjast hefur fíkniefnum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Fréttablaðið/Ernir

Ætlar að bíða og sjá

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, segist ætla að bíða og sjá hvernig frumvarpið muni á endanum líta út áður en hann tekur afstöðu til þess. Þorsteinn var fjarverandi í atkvæðagreiðslunni í sumar en hefur í fjölmiðlum varað við þessari leið. Ekki megi verða viðurkennt að fólk gangi með ólögleg efni á sér og neysluskammtar gætu hæglega verið ætlaðir til sölu.

„Þegar sambærilegt mál var síðast rætt í þinginu benti ég á að sektin fyrir að vera tekinn með neysluskammt væri eins og að vera tekinn á 110 kílómetra hraða uppi á Kjalarnesi,“ segir Þorsteinn. „Ég veit ekki hvort það sé einhver glæpavæðing. Það þarf að skoða þetta allt í samhengi.“

Neysluskammtur hefur ekki verið skilgreindur í lögum en samkvæmt áformum ráðherra verður hann skilgreindur með reglugerð. Hingað til hefur verið talið að neysluskammtur sé það sem liggi sektir allt að 75 þúsund krónum við. Þetta getur verið allt að 6 grömm af kannabisefnum, 2,5 grömm af amfetamíni og 1 gramm af kókaíni.

Mikilvægt að skilgreina neysluskammta

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, var meðflutningsmaður að frumvarpi Pírata en sat hjá við atkvæðagreiðslu málsins í þinginu. „Það var meðal annars vegna þess að það var ekki komin nein reynsla á nýsamþykkt lög um neyslurými. Ég held að ef við fáum frumvarp núna þá eigum við að freista þess að klára það á þessu þingi.“ Þá sé áformað að skilgreina betur neysluskammta. „Ég held að það muni skipta máli, bæði upp á skýrleika og upp á að réttarstaða með tilliti til vörslu efna verður miklu skýrari.“

Hann óttast ekki að vímuefni verði meira áberandi við afglæpavæðingu. „Með því að horfast í augu við vandann með þessum hætti þá eigum við miklu betri tækifæri en ella til að koma til móts við fólk með vímuefnavanda og hjálpa því.“