Mikhail V. Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, segir hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu vera afleiðingu af yfirgangssemi úkraínskra yfirvalda gegn rússneskum ríkisborgurum.

„Grundvallaratriðið er það að við erum ekki á einhvern hátt að kæfa hagsmuni úkraínsku þjóðarinnar. Mikilvægasti punkturinn er sá að við viljum tryggja hagsmuni rússneskra ríkisborgara okkar í Úkraínu og auk þess öryggi sjálfs Rússlands og berjast gegn þeim sem taka Úkraínu í gíslingu og notfæra sér hana í eiginhagsmunaskyni.“

Úkraínumenn hafi stundað þjóðarmorð

Að sögn Noskov hafa úkraínsk yfirvöld stundað þjóðarmorð á rússneskum ríkisborgurum á Donbas-svæðinu, sem héruðin Donetsk og Luhansk tilheyra, undanfarin átta ár. Sendiherrann endurómar þar orð Pútíns sem vísaði meðal annars til meintra þjóðarmorða til að réttlæta ákvörðun sína um að senda herafla inn á svæðið. Engar haldbærar vísbendingar hafa hins vegar fundist sem styðja fullyrðingar rússneskra yfirvalda um meint þjóðarmorð og lýsti Olof Scholz, kanslari Þýskalands, ummælum Pútíns sem „fáránlegum“.

„Hernaðarlegur stuðningur okkar er afleiðing af yfirgangssemi úkraínsku ríkisstjórnarinnar gagnvart rússneskum ríkisborgurum. Þar eru meira en 100.000 rússneskir ríkisborgarar með rússneskt vegabréf. Þar að auki höfum við séð tvö ávörp þar sem leiðtogar Donetsk og Luhansk óskuðu eftir hjálp,“ segir Noskov og vísar þar til ákalls leiðtoga héraðanna tveggja þar sem þeir biðluðu til Vladímírs Pútíns um hjálp.

Sendiherrann ítrekar líka viðvörun Pútíns til erlendra ríkja sem hann undirstrikaði í ræðu sinni á fimmtudagsmorgun. Þar lýsti forsetinn því að lönd sem skiptu sér af aðgerðum Rússa mættu vita að „viðbrögð Rússlands verða tafarlaus og munu valda ykkur afleiðingum sem þið hafið aldrei áður staðið andspænis í sögu ykkar.“

Þessi orð Pútíns hafa af mörgum verið túlkuð sem hótun um að Rússar muni ekki hika við að nota kjarnorkuvopn sem andsvar við hernaðaraðgerðum erlendra ríkja.

Noskov segir Rússa taka allri ógn frá utanaðkomandi ríkjum mjög alvarlega.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Spurður um það hvort Rússar hyggist innlima Úkraínu í rússneska sambandsríkið segir Noskov:

„Við höfum engar slíkar áætlanir og við sögðum heldur ekkert um innlimun Donbas-svæðisins í rússneska sambandsríkið. Við viðurkenndum sjálfstæði þeirra. Svo stýrðum við sérstökum hernaðarlegum aðgerðum þar eins og var útskýrt af Pútín forseta.“

Afleiðingar aðallega fyrir Ísland

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu og lýsti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því til að mynda yfir að innrásin væri „óásættanlegt brot á alþjóðalögum“. Noskov kveðst vera mjög meðvitaður um andstöðu erlendra ríkja við aðgerðir Rússa.

„Ég myndi hvetja öll þessi lönd til að íhuga alvarlega að veita Rússlandi þær tryggingar í öryggismálum sem við kröfðumst. Þetta ástand er miklu víðtækara en að það eigi bara við um Úkraínu,“ segir sendiherrann spurður um hver viðbrögðin séu við fordæmingu alþjóðasamfélagsins. Þá bætir hann því við að Rússar taki allri ógn frá utanaðkomandi ríkjum mjög alvarlega.

Bjarni Benediktsson hefur einnig fordæmt innrás Rússa og fullyrti fjármálaráðherra að umsvif Rússa í íslenskri efnahagslögsögu hefðu öðlast allt aðra þýðingu í ljósi ástandsins. Noskov segist fullmeðvitaður um það að Ísland muni taka þátt í efnahagsþvingunum gegn Rússlandi og að það gæti haft neikvæð áhrif á tvíhliða efnahagstengsl Íslands og Rússlands.

„Það munu verða afleiðingar en aðallega fyrir Ísland. Afleiðingarnar verða verri fyrir efnahag Íslands en efnahag Rússlands,“ segir hann.