Anna Dóra Sæþórsdóttir, forseti Ferðafélags Íslands, ætlar að segja af sér formennskunni. Frá þessu greinir hún á Facebook og segir ástæðuna vera að í félaginu ráði stjórnarhættir ríkjum sem fari þvert gegn hennar eigin gildum. Hún telur að stjórn félagsins hafi ekki brugðist vel við málum er varða meðal annars brot á siðareglum félagsins, ásakanir um áreitni og gróft kynferðislegt ofbeldi.

„Ég hef reynt að vinna að breytingum en innan stjórnar hefur ekki verið vilji til að breyta starfsháttum og því skilja leiðir. Ástæður afsagnarinnar geri ég opinberar því mér finnst rétt að upplýsa félagsfólk um þau mál sem eru í gangi innan félagsins.“ segir Anna sem var kjörinn forseti félagsins sumarið 2021.

Hún segir að það hafi verið mikill heiður, en áður en lagt um leið hafi ýmisleg mál komið á yfirborðið sem að hennar mati virtust hafa verið þögguð niður.

„Fljótlega eftir kosningu fóru mér að berast upplýsingar um ýmis mál sem ekki hafði verið brugðist við af hendi félagsins, heldur virtist upplýsingum ítrekað hafa verið stungið undir stól, hvort sem þær vörðuðu ásakanir um áreitni og gróft kynferðislegt ofbeldi eða athugasemdir um rekstur félagsins. Þegar ég fór að beita mér fyrir því að tekið yrði á þessum málum og öðrum fór að bera á brestum í samstarfi mínu við stjórn og framkvæmdastjóra.“ skrifar Anna í tilkynningu sinni og segir að stjórnendur félagsins hafi verið meðvitaðir um þessi mál.

„Alvarlegustu málin snertu einstaklinga sem höfðu gerst brotlegir á siðareglum félagsins eða verið ásakaðir um áreitni eða gróft kynferðislegt ofbeldi. Æðstu stjórnendur félagsins höfðu haft upplýsingar um þessi mál í lengri tíma, án þess að taka á þeim. Þvert á móti fengu þeir sem þessum sökum voru bornir að starfa áfram sem fararstjórar á vegum félagsins. Eitt þessara mála varðaði stjórnarmann í félaginu.“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórnarmaður sagði sig úr stjórn en vinirnr vildu hann aftur

Anna segist hafa beitt sér fyrir því að tekið yrði á málunum af festu og setti hún af stað athugun sem leiddi til þess að stjórnarmaður í félaginu sagði sig úr stjórn. Hún segir það síðan hafa komið sér á óvart þegar aðrir stjórnarmeðlimir, og nefnir sérstaklega vin miðlimarins sem sagði af sér, hafi viljað endurskoða mál hans. Anna fullyrðir að engin málefnaleg eða viðskiptaleg rök hafi verið fyrir hendi.

Þar vísar hún í mál Helga Jóhannessonar, sem sagði sig úr stjórn félagsins í nóvember í fyrra.

„Sá sem sagði af sér hefur enga sérhæfða þekkingu til starfa innan félagsins, sem fjöldi annarra getur ekki innt jafnvel af hendi. Ávinningur af slíkri ráðstöfun væri því enginn fyrir Ferðafélagið en myndi hins vegar valda félaginu orðsporsáhættu og mögulega aftra fólki frá þátttöku í ferðum félagsins, auk hættunnar á því að fyrri hegðun myndi endurtaka sig og aðrar konur yrðu fyrir áreitni.“ segir Anna og bætir við að helstu rökin fyrir fyrirhugaðri endurkomu hans var vinátta hans við stjórnarmeðlimi. „Helstu rökin sem notuð voru til að réttlæta endurkomu umrædds fyrrverandi stjórnarmanns voru að hann væri „vinur okkar“ og að „við skulduðum honum“. Það er að mínu mati óeðlilegt að stjórnarfólk taki þátt í umræðu og ákvörðunum um vini sína og beiti aðstöðu sinni til að veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu.“

Þá greinir Anna frá því að nýlega hafi henni borist upplýsingar um eitt mál í viðbót er varðaði áreitni og ósæmilega hegðun í skipulagðri ferð á vegum félagsins. Málið snerti á stjórnarmanni í félaginu, sem hún segir að hafi ekki verið meðhöndlað í samræmi við stefnu félagsins. „Þegar ég fékk veður af málinu og óskaði eftir upplýsingum um það, voru viðbrögðin þau að hafa uppi óbeinar hótanir gagnvart fararstjóra ferðarinnar, auk þess sem haft var samband við vinkonu konunnar sem fyrir áreitinu varð. Þeim var tilkynnt að það myndi hafa afleiðingar ef þetta mál yrði rætt frekar.“ segir Anna.

Bannað að vera í samskiptum við aðra í félaginu

Í yfirlýsingu sinni segir Anna sína upplifun vera þá að stjórnarmenn í félaginu séu ekki að vinna í hag félagsins heldur til að viðhalda ákveðnu valdajafnvægi. Þá sakar hún aðra stjórnarmeðlimi um dónaskap og útilokun í sinn garð, og minnist sérstaklega á bréf sem húnn fékk frá meirihluta stjórnar í júní á þessu ári. „[Þ]ar sem mér var bannað að vera í samskiptum við framkvæmdastjóra, starfsfólk skrifstofu félagsins og annað stjórnarfólk næstu mánuði. Ég átti engu að síður að sitja áfram sem forseti með þeirri ábyrgð sem í því felst. Þetta bréf er í raun birtingarmynd þeirra stjórnarhátta sem tíðkast innan félagsins og framkomu meirihluta stjórnar í minn garð.“ segir hún um bréfið.

Í lok yfirlýsingar sinnar ítrekar Anna að hún vilji ekki starfa í félagi þar sem stjórnarhættir ráði ríkjum ríkjum sem fari þvert gegn hennar eigin gildum, og vonast hún til þess að það muni breytast sem fyrst.