Breski auðkýfingurinn sir Jim Ratcliffe hefur gert samkomulag við Hafrannsóknastofnun um rannsóknaráætlun til verndar íslenska laxastofninum í ám á Norðausturlandi.

Samkomulag þess efnis var undirritað af Sigurði Guðjónssyni, forstjóra Hafró, og Peter S. Williams, framkvæmdastjóra hjá fyrirtæki Ratcliffes, Ineos Group, í húsakynnum Hafró í gær.

Rannsóknin verður í höndum tveggja doktorsnema, eins hér á landi og annars í Imperial College í Lundúnum. Notast verður við genakortlagningar og hátæknimerkingar fiska sem leiða á í ljós tengslin á milli umhverfis og hegðunar laxa í ánum og endurkomu þeirra í árnar úr hafi.

Verkefnið verður fjármagnað af Ratcliffe í gegnum veiðifélagið Streng. Gert er ráð fyrir að rannsóknin kosti 80 milljónir á nokkurra ára tímabili. Samhliða því verður farið í uppbyggingu í tengslum við verndun laxastofnsins á jörðum Ratcliffes í kringum Vopnafjörð og Þistilfjörð, en hann á einnig meirihlutann í Grímsstöðum á Fjöllum. Gert er ráð fyrir að þær framkvæmdir kosti um 600 milljónir króna.

„Fjármagnið kemur upphaflega frá Ratcliffe, en þegar fram líða stundir þá vonumst við til að fjármagna verkefnið áfram í gegnum hagnað veiðifélagsins,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs. „Við erum að tala um 600 milljónir í laxastiga, veiðihús, vegi og fleira.“

Sigurður segir að samkomulagið hafi verið í bígerð í rúmt ár. „Við erum búnir að vera með rannsóknir í þessum ám áratugum saman, þarna er komin kærkomin viðbót til að gera eitthvað nýtt og spennandi. Það á reyndar eftir að móta það nákvæmlega hvað við ætlum að gera. Við teiknum upp verkefni fyrir þennan nema og leiðsegjum honum. Svo verðum við að vona að það komi einhver ný þekking úr þessu,“ segir Sigurður. Laxastig útvíkki hrygningarsvæði en geti haft smávægileg áhrif á urriða.

Aðspurður hvort Hafró starfi oft með einkaaðilum segir Sigurður það mjög algengt. Varðandi Rat­cliffe sjálfan segir Sigurður það ekki skipta máli hver hann sé. „Hann vill vita meira um laxinn og það er okkar verkefni alla daga að auka þekkingu. Þetta er hið vænsta mál.“

Kaup Ratcliffes á jörðum hafa verið umdeild hér á landi líkt og jarðakaup erlendra aðila almennt. Eins og fram kom í könnun Zenter rannsókna fyrir Fréttablaðið nýverið er mikill stuðningur við að stjórnvöld setji frekari skorður við jarðakaupum erlendra aðila. Hefur ríkisstjórnin rætt þessi mál og hefur forsætisráðherra boðað frumvarp þess efnis í vetur. Gísli sagði við kaupin á Brúarási 2 í Þistilfirði fyrr í sumar að Ratcliffe áformaði ekki frekari landakaup.

Williams, sem skrifaði undir samkomulagið við Hafró fyrir hönd Ratcliffes, kannast við umræðuna hér á landi en aðkoma Radcliffe að snúist aðeins um vernd íslenska laxastofnsins.

„Verndun villtra stofna er hans hjartans mál, ekki bara hér á Íslandi, en hér á Íslandi snýst þetta um Norðausturland. Við lítum þannig á þetta að ef einhverri einni tegund fækkar um þrjá fjórðu á nokkrum áratugum myndum við segja að hún væri í útrýmingarhættu, en enginn talar um að laxinn sé í hættu. Þetta er eitthvað sem við getum gert í því,“ segir Williams.

Ísland henti vel til rannsókna, það séu aðeins þrjár tegundir af fiski í ánum og umhverfið sé þar að auki gullfallegt. Hefur hann litlar áhyggjur af almenningsálitinu. „Þegar upp er staðið þá getur fólk dæmt fyrir sig, en við erum að fjárfesta mikið í rannsóknum og mikilli uppbyggingu. Við munum bara vinna innan íslensks lagaramma, það er allt í lagi. Rannsóknirnar munu samt halda áfram. Þetta snýst bara um verndun til langs tíma.“