Dóra Jóhannsdóttir, leikstjóri Áramótaskaupsins, óttaðist það mjög að skaupið síðasta gamlárskvöld yrði hreinlega leiðinlegt fyrir þær sakir að hún var hætt að drekka og þess utan komin á ADHD-lyf. Sú blanda yrði örugglega ávísun á misheppnað skaup, enda leikstjórinn í alls engu djammstuði.
Þetta segir Dóra í einkar persónulegu viðtali við Sigmund Erni í Mannamáli kvöldsins, sem hefst klukkan 19:00, en þar fer hún yfir skrautlegan ferilinn innan sviðs og utan – og talar þar meðal annars hispurslaust um baráttu sína við Bakkus og alla óreiðukenndina og áföllin í eigin lífi.
En skaupið varð gott, eins og landsmenn þekkja, leikstjórinn þurfti hvorki að vera ofvirkur eða með eitthvað í sér á meðan á framleiðslunni stóð, enda kveðst Dóra hafa haft einmunalið að baki sér við gerð skaupsins – og hennar eigið ástand, að vera bæði edrú og á lyfjum, hafi bara þýtt í hennar tilviki að einbeitingin og athyglin hafi verið upp á tíu.
Þennan bút úr viðtalinu má sjá hér.