Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir það alveg ljóst að þunglyndiseinkenni og vanlíðan á Íslandi hafi aukist í faraldrinum, sérstaklega meðal ungmenna.

Grímur segir ungt fólk á Íslandi líða mikið þegar aðgerðir eru hertar og kallar hann eftir að stjórnvöld horfi á heildarmyndina þegar verið er að ákveða sóttvarnaaðgerðir.

Geðhjálp hefur verið að mæta vanda ungmenna með verkefninu Geðlestinnni, sem heimsækir nemendur á grunnskólaaldri.

„Markmiðið er að efla geðrækt meðal barna og ungmenna í ljósi þess að þetta er mjög flókið. Í fyrsta lagi er mjög flókið að vera unglingur og það hefur alltaf verið flókið, en það er mjög flókið í dag,“ segir Grímur.

„Það er svo margt sem að spilar inn í og svo kemur þetta Covid ofan í það. Sem gerir það að verkum að þau eru búin að vera í sóttkví og mikið álag á þeim rétt eins og öðrum. Maður horfir á það að það er engin heildræn hugsun í aðgerðum stjórnvalda,“ segir Grímur og bætir við að Geðhjálp hafi skrifað heilu og hálfu minnisbækurnar í tengslum við geðræn vandamál og faraldurinn. Að hans mati er hins vegar alltaf bara horft á eina breytu, sem eru Covid-veikindi og dauðsföll.

„Það hafa ekki dáið margir úr Covid á þessu ári, og ég ætla ekki að gera lítið úr því, en ástandið núna er þannig að það eru fáir að deyja. Það deyja færri úr Covid núna heldur en deyja úr flensu, en við förum samt með hvert einasta andlát eins og það sé alveg það versta sem hefur komið fyrir okkur,“ segir Grímur.

„Á sama tíma dóu fjörutíu og sjö í fyrra fyrir eigin hendi og það er bara það sem er gefið upp. Það er fólk sem keyrir framan á bíla, keyrir út í sjó, veltir bílum sínum og tekur of stóran skammt og svona, en það er ekki endilega litið á það sem sjálfsvíg heldur slys.“

Spurður um stöðuna á sjálfsvígum í ár, segir Grímur að þær tölur eigi eftir að koma í ljós. „Það veit enginn. Landlæknir heldur utan um dánarmeinaskrá og það kemur yfirleitt í apríl um árið. Það var bara í fyrra að það var gefið út að það hefðu verið þrjátíu sjálfsvíg komin í ágúst. Það var þá sem við vissum eitthvað.“

Grímur segir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi bent á það í upphafi faraldursins að við myndum glíma við geðrænar áskoranir í kjölfar hertra aðgerða og að við yrðum að passa mótvægi í því. Geðhjálp gerði slíkt hið sama og sendi síðast ítrekun þess efnis við sumarlok.

„Ég ætla ekki að gera lítið úr faraldrinum og lítið úr hættunni, en við verðum að fara að vega og meta afleiðingarnar og þá vera með einhverjar mótvægisaðgerðir gagnvart þeim. Þær eru svo fáar. Ef þær eiga að vera fáar þá er bara spurning hverjar eru afleiðingar þess að keyra þessa stefnu?“ spyr Grímur.

„Við verðum að vita það og meta það betur í stað þess segja: „Við gerum bara þetta og það er rétt og best og það er ekkert annað í boði,““ segir Grímur að lokum.