Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, þing­maður Við­reisnar, veltir því fyrir sér hvort Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra sé „dýrasti fjár­mála­ráð­herra Ís­lands­sögunnar.“

Hún gagnrýnir aðgerðarleysi Bjarna þegar kemur að því að bjarga Íbúðalánasjóði frá þroti.

„Eftir lokun markaða á fimmtu­dag hélt fjár­mála­ráð­herra blaða­manna­fund þar sem hann kynnti að Í­búða­lána­sjóður færi að ó­breyttu í þrot eftir 12 ár og þá myndi reyna á ríkis­á­byrgð,“ segir Þor­björg í færslu á Face­book.

Bjarni hafi á sama fundi kynnt hug­mynd sem gæti sparað ríkis­sjóð gríðar­legar fjár­hæðir. „Þar mátti þó reyndar líka heyra að væntan­legt fjár­tjón ríkis­sjóðs í dag væru um 47 milljarðar. Og gæti orðið meira,“ segir Þor­björg.

Hún segir Bjarna hafa ætlað að ná sparnaðinum fram með því að ná sam­komu­lagi við lánar­drottna Í­búðar­sjóðs um upp­gjör skulda. „Lánar­drottnar eru að stærstum hluta líf­eyris­sjóðirnir. Með öðrum orðum: al­menningur í landinu,“ segir hún.

„Ef þeir vilja ekki semja við fjár­mála­ráð­herra á allra næstu vikum ætlar hann að setja lög til að ná fram vilja sínum. Í­búða­lána­sjóðnum yrði þá í kjöl­farið slitið á nýju ári, skuldir látnar gjald­falla og ríkis­á­byrgð virkjuð.“

Þor­björg segir það rétta að grípa verði inn stöðu þar sem tap getur verið 18 milljarðar á ári, „og slík staða má ekki við­gangast lengi án að­gerða stjórn­valda.“

Því hafi fjár­mála­ráð­herra sagt það mikil­vægt og á­byrgt gagn­vart komandi kyn­slóðum og kröfu­höfum að gengið verði til þessa upp­gjörs fyrr en seinna. „Gríðar­legt fjár­tjón myndi falla á skatt­greið­endur og fram­tíðar­kyn­slóðir ef ekkert yrði gert,“ segir Þor­björg.

Hún gagn­rýnir við­bragðs­tíma Bjarna og segir hann hafa þekkt þessa stöðu árum saman. Þá hafi legið fyrir í apríl 2013 skýrsla um fram­tíðar­horfur Í­búða­lána­sjóðs þar sem fjallað var um mikla rekstrar­erfið­leika. „Fjár­mála­ráð­herra hefur ein­mitt setið í em­bætti frá 2013,“ bendir hún á og segir hann hafa haft tæpan ára­tug að draga úr tjóni al­mennings.

„Það er rán­dýrt að­gerða­leysi og það er al­menningur sem tekur reikninginn,“ segir Þor­björg.

Sjá má færsluna í heild sinni hér að neðan.