Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, veltir því fyrir sér hvort Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sé „dýrasti fjármálaráðherra Íslandssögunnar.“
Hún gagnrýnir aðgerðarleysi Bjarna þegar kemur að því að bjarga Íbúðalánasjóði frá þroti.
„Eftir lokun markaða á fimmtudag hélt fjármálaráðherra blaðamannafund þar sem hann kynnti að Íbúðalánasjóður færi að óbreyttu í þrot eftir 12 ár og þá myndi reyna á ríkisábyrgð,“ segir Þorbjörg í færslu á Facebook.
Bjarni hafi á sama fundi kynnt hugmynd sem gæti sparað ríkissjóð gríðarlegar fjárhæðir. „Þar mátti þó reyndar líka heyra að væntanlegt fjártjón ríkissjóðs í dag væru um 47 milljarðar. Og gæti orðið meira,“ segir Þorbjörg.
Hún segir Bjarna hafa ætlað að ná sparnaðinum fram með því að ná samkomulagi við lánardrottna Íbúðarsjóðs um uppgjör skulda. „Lánardrottnar eru að stærstum hluta lífeyrissjóðirnir. Með öðrum orðum: almenningur í landinu,“ segir hún.
„Ef þeir vilja ekki semja við fjármálaráðherra á allra næstu vikum ætlar hann að setja lög til að ná fram vilja sínum. Íbúðalánasjóðnum yrði þá í kjölfarið slitið á nýju ári, skuldir látnar gjaldfalla og ríkisábyrgð virkjuð.“
Þorbjörg segir það rétta að grípa verði inn stöðu þar sem tap getur verið 18 milljarðar á ári, „og slík staða má ekki viðgangast lengi án aðgerða stjórnvalda.“
Því hafi fjármálaráðherra sagt það mikilvægt og ábyrgt gagnvart komandi kynslóðum og kröfuhöfum að gengið verði til þessa uppgjörs fyrr en seinna. „Gríðarlegt fjártjón myndi falla á skattgreiðendur og framtíðarkynslóðir ef ekkert yrði gert,“ segir Þorbjörg.
Hún gagnrýnir viðbragðstíma Bjarna og segir hann hafa þekkt þessa stöðu árum saman. Þá hafi legið fyrir í apríl 2013 skýrsla um framtíðarhorfur Íbúðalánasjóðs þar sem fjallað var um mikla rekstrarerfiðleika. „Fjármálaráðherra hefur einmitt setið í embætti frá 2013,“ bendir hún á og segir hann hafa haft tæpan áratug að draga úr tjóni almennings.
„Það er rándýrt aðgerðaleysi og það er almenningur sem tekur reikninginn,“ segir Þorbjörg.
Sjá má færsluna í heild sinni hér að neðan.