Sema Erla Serdar, formaður og stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, segir að gögn síðan í desember 2021 sýni að tólf börn séu með stöðu flóttamanns á Íslandi. Af þessum tólf börnum séu aðeins tvö í viðeigandi úrræði, hjá fósturfjölskyldu. Hin séu í úrræðum á vegum Útlendingastofnunar.

Þar á meðal sé eitt barn á Ásbrú í búsetuúrræði með hundrað fullorðnum einstaklingum sem sótt hafa um vernd. Útlendingastofnun vísar ákvarðanavaldi varðandi búsetu og aðstöðu barna til barnaverndaryfirvalda.

„Þegar fylgdarlaus börn á flótta koma til landsins er barnaverndaryfirvöldum gert viðvart. Samkvæmt lögum eiga þau að koma þeim fyrir í aðstöðu sem hentar börnum,“ segir Sema Erla.

„Fyrsti kosturinn er fósturfjölskyldur, en mér skilst að það sé og hafi alltaf verið skortur á þeim. Það þýðir ekki að það megi vista börn undir lögaldri með fullorðnu fólki.“

Sema Erla bendir á að fylgdarlaus börn á flótta séu viðkvæmasti hópur flóttafólks. „Þau þurfa á sérstakri vernd og umönnun að halda. Við eigum að gera betur en að brjóta á réttindum þeirra með þessum hætti.“ Hún segir að málsmeðferðin stangist á við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Þessi börn eru ein, þau eru allslaus og hafa ekki málsvara. Þau eru ekki í aðstöðu til að mótmæla þeirri stöðu sem þau eru sett í.“

Sema Erla Serdar, formaður og stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
Fréttablaðið/Ernir