Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara hafa hótað að grípa til „ótilgreindra aðgerða“ myndi hún ekki mætta á fund sinn, morguninn 26 janúar. Þar hafi hann afhent sér fullbúna miðlunartillögu varðandi deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins sem hefur verið til umræðu síðustu daga.
Þetta segir Sólveig í Facebook-færslu, þar sem hún segir ljóst að á engum tímapunkti hafi Aðalsteinn ráðfært sig við hana, formann Eflingar. Því segir hún sáttasemjara hafa brotið lög.
Í færslunni fjallar Sólveig um samskipti sín og Aðalsteins í undanfara þessa fundar, sem hún segir að hafi verið boðaður með skömmum fyrirvara.
„Ég sagðist ekki geta boðað samninganefnd félagsins á fund með svo stuttum fyrirvara, sökum þess að hún væri mönnuð fólki sem væri í vinnu og þyrfti í það minnsta smá fyrirvara til að fá leyfi frá vinnu. Aðalsteinn sinnti þessu engu og hótaði að grípa til ótilgreindra „aðgerða“ gegn mér ef að ég kæmi ekki á fund.“ skrifar hún.
„Á fundinum reyndi ég aftur og aftur að segja við ríkissáttasemjara að sú miðlunartillaga sem hann ætlaði sér að þröngva upp á Eflingu fæli í sér að Eflingar-fólk fengi allt að 20.000 krónum lægri hækkanir en meðlimir í öðrum SGS félögum, vegna mjög ólíkrar samsetningar félagahópsins.“ bætir hún við.
Auk þess fullyrðir Sólveig að ríkissáttasemjari hafi ekki brugðist við þessum athugasemdum sínum. „Í lok fundarins spurði ég hvenær hann ætlaði sér að birta tillöguna opinberlega. Hann svaraði að það yrði seinna um daginn. Þegar ég gekk út af fundinum varð mér ljóst að ríkissáttasemjara lá á að losna við mig úr húsi vegna þess að hann var að hefja blaðamannafund kl. 11 til að segja þar öllum frá miðlunartillögu sinni.“
Sólveig Anna segir ljóst að Aðalsteinn hafi ekki ekki ráðgast við sig, þó hann hafi ráðgast við fjölda annara.
„Hin augljósa niðurstaða er þessi: Ríkissáttasemjari braut lög. Hann hefur eflaust talið, ásamt ráðgjöfum sínum og samverkafólki, að sökum þess að forysta Eflingar er „umdeild“ kæmist hann upp með það. En þar hafði hann rangt fyrir sér. Hann mun ekki komast upp með tilraun sína til að svipta Eflingu sjálfstæðum samningsrétti. Það mun aldrei gerast,“ segir hún að lokum.