Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, segist hafa skilning á því sjónarmiði að leyfa vínsölu á skíðasvæðum innalands.

„Í Hlíðarfjalli var veitingsalan boðin út og veitingamaðurinn hefur eðli máls samkvæmt hag af áfengissölu,“ segir Magnús. „Mögulega verður þetta framtíðin á Íslandi en við erum ekki að hugleiða þetta að svo stöddu, enda erum við rekin af sveitarfélögum og íþrótta- og æskulýðssviðum.“

Með öðrum orðum gæti vínsala hafist í Bláfjöllum í framtíðinni ef reksturinn verður boðinn út.

„Ég framfylgi stefnu bæjarráðs, ég vil ekki tjá mig um þetta mál,“ segir Ásthildur Sturludóttir, ópólitískur bæjarstjóri á Akureyri.

Bæjarráð Akureyrar, að undanskilinni Sóleyju Björk Stefánsdóttur, fulltrúa VG, hefur tekið jákvætt í erindi Sölva Antonssonar veitingamanns um að áfengissala verði heimiluð í Hlíðarfjalli til klukkan 20.30 á veturna. Sóley Björk segir að mikil andstaða hafi komið við þessar hugmyndir á samfélagsmiðlum.

„Kommentakerfin loga hreinlega og aldrei þessu vant er maður ekki skotskífa,“ segir hún.

Tilraun var gerð um sölu áfengis í fjallinu síðastliðinn vetur. Hafa forráðamenn skíðasvæðisins sagt að engin vandamál hafi komið upp. Sóley Björk segir þó tvennum sögum fara af því.

„Ég man að þegar þetta var leyft um tíma þá var talað um rosalegt fyllerí þarna tvær fyrstu helgarnar. Það voru sögur af fólki sem bar bjór út úr áfengissölunni, sem er ólöglegt, að því er virðist vegna kæruleysi veitingasalanna,“ segir hún.

Hún segir að vel mætti ræða að bjóða upp á vínsölu síðasta klukkutímann fyrir lokun dag hvern. Þá segir Sóley að nokkur áhersla hafi verið á að markaðssetja Akureyri sem fjölskyldubæ. Einnig gangi markaðssetningin út á ferðamannaparadís. Í þessu máli stangist á viðskiptahagsmunir og forvarnir.

„Það er þannig að þú getur sent börn yfir ákveðnum aldri ein upp í fjallið og treystir því þá að þau séu örugg. Með þessu skrefi er grafið undan því,“ segir Sóley Björk.

„Það hefur orðið ákveðin normalísering á áfengi,” segir hún.

Ásthildur Sturludóttir

Ásthildur bæjarstjóri vildi ekki tjá sig um málið.