Einn helsti yfirmaður kjarnorkumála í Íran hefur nú hvatt alþjóðasamfélagið til að bregðast við „kjarnorkuhryðjuverkum“ eftir að ráðist var á neðanjarðar kjarnorkuver á Natanz svæðinu í morgun en forseti Íran, Hassan Rouhani, kynnti þar til leiks nýjar skilvindur í gær.
Slíkar skilvindur eru nauðsynlegar til þess að framleiða auðgað úran en margir hafa lýst yfir áhyggjum undanfarið vegna framleiðslu Írana, sem brýtur í bága við samning sem gerður var árið 2015 um kjarnorkuframleiðslu Írana. Bandaríkjamenn gengu frá samningnum árið 2018 en margir vilja að hann verði tekinn upp aftur.
Að því er kemur fram í frétt BBC um málið greindi talsmaður Kjarnorkusamtaka Íran, AEOI, frá því í morgun að „atburður“ hafi átt sér stað sem tengdist rafkerfi versins. Enginn hafi særst og engir lekar hafi komið upp í kjölfarið. Yfirmaður AEOI, Ali Akbar Salehi, ávarpaði þó þjóðina skömmu síðar og sagði að um skemmdarverk hafi verið að ræða.
Salehi gaf ekkert upp um hverjir gætu hafa staðið að baki árásarinnar en sagði að þeim yrði refsað. Þetta er í annað sinn sem eitthvað kemur upp á Natanz svæðinu en í fyrra kom þar upp eldsvoði. Yfirvöld héldu því þá fram að um netárás hafi verið að ræða, svipað og haldið er fram nú. Þá er talið mögulegt að Ísrael sé að baki árásarinnar.
Alþjóðakjarnorkustofnunin IAEA sagðist ekki hafa heyrt af málinu þegar til þeirra var leitað en að þau kæmu til með að skoða málið.
BREAKING: A spokesman for Iran’s civilian nuclear program says an “accident” has struck the electrical distribution grid of the country’s Natanz nuclear facility, without elaborating. https://t.co/g81dCvHNqR
— AP Middle East (@APMiddleEast) April 11, 2021