Einn helsti yfir­maður kjarn­orku­mála í Íran hefur nú hvatt al­þjóða­sam­fé­lagið til að bregðast við „kjarn­orku­hryðju­verkum“ eftir að ráðist var á neðanjarðar kjarn­orku­ver á Natanz svæðinu í morgun en for­seti Íran, Hassan Rou­hani, kynnti þar til leiks nýjar skil­vindur í gær.

Slíkar skil­vindur eru nauð­syn­legar til þess að fram­leiða auðgað úran en margir hafa lýst yfir á­hyggjum undan­farið vegna fram­leiðslu Írana, sem brýtur í bága við samning sem gerður var árið 2015 um kjarn­orku­fram­leiðslu Írana. Banda­ríkja­menn gengu frá samningnum árið 2018 en margir vilja að hann verði tekinn upp aftur.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið greindi tals­maður Kjarn­orku­sam­taka Íran, AEOI, frá því í morgun að „at­burður“ hafi átt sér stað sem tengdist raf­kerfi versins. Enginn hafi særst og engir lekar hafi komið upp í kjöl­farið. Yfir­maður AEOI, Ali Akbar Salehi, á­varpaði þó þjóðina skömmu síðar og sagði að um skemmdar­verk hafi verið að ræða.

Salehi gaf ekkert upp um hverjir gætu hafa staðið að baki á­rásarinnar en sagði að þeim yrði refsað. Þetta er í annað sinn sem eitt­hvað kemur upp á Natanz svæðinu en í fyrra kom þar upp elds­voði. Yfir­völd héldu því þá fram að um net­á­rás hafi verið að ræða, svipað og haldið er fram nú. Þá er talið mögu­legt að Ísrael sé að baki á­rásarinnar.

Al­þjóða­kjarn­orku­stofnunin IAEA sagðist ekki hafa heyrt af málinu þegar til þeirra var leitað en að þau kæmu til með að skoða málið.