Hanna Sif Hafdal, öryrki sem er búsett í Danmörku, segir að fyrirhuguð áform um rafræna skilríkjanotkun á Íslandi gera öryrkjum búsettum erlendis erfitt fyrir, sérstaklega þeim sem geti ekki ferðast vegna örorku sinnar.
Hún segir að þótt að það sé jákvætt að sjá að það sé verið að auka öryggi með notkun rafrænna skilríkja þurfi um leið að huga að Íslendingum sem séu búsettir erlendis.
„Þetta virkar eitthvað svo furðulegt og eins og það sé ákveðið misrétti falið í þessu. Að það gangi ekki það sama yfir alla,“ segir Hanna Sif í samtali við Fréttablaðið.
Hún bendir á að ef þú búir erlendis þarftu að koma til Íslands til að fá sækja um ný rafræn skilríki sem og síma með íslensku símkorti.
„Ef þú býrð erlendis, þá þarftu að koma til Íslands í eigin persónu til að fá þessi nýju rafrænu skilríki. Ekki nóg með það, þá þarftu að vera með íslenskt farsímanúmer til að kóða skilríkin inn í, og síma náttúrlega. Það er ekki nóg að eiga símkortið, þannig að þér dugi einn sími. Nei, því um leið og kortið er tekið úr símanum, þá þarftu að kóða skilríkin aftur inn, og það er bara hægt í eigin persónu á Íslandi. Sem sagt, einn sími sem þú notar í því landi sem þú býrð í erlendis, og annar sem þú notar kannski eingöngu fyrir þau skipti sem þú þarft að skrá þig inn hjá opinberum stofnunum.“
Í hennar tilfelli sé það hins vegar þannnig að hún kemst ekki til Íslands og er almennt óferðafær vegna heilsuleysis. Hún hafi ekki komið til Íslands frá 2010 og geti því ekki fengið þessi rafrænu skilríki.
„Ég hreinilega kemst ekki til Íslands til að ná í þetta, og ég er ekki sú eina sem hefur áhyggjur af þessari þróun. Þótt að einhverjir öryrkjar komist til Íslands, er það aldrei auðvelt. Við erum öll með takmarkaðar tekjur og mörg með lélegt heilsufar svo að það er enginn ánægður með þessa lausn.“
Stefnt er að því að loka á Íslykil um mitt ár sem takmarkar getu Hönnu til að komast í eigin gögn.
„Þegar búið er að loka á íslykilinn minn, þá hef ég engan aðgang að mínum eigin stafrænu skjölum á Íslandi,“ segir Hanna sem er hissa á því hvað ferlið sé flókið á Íslandi til samanburðar við önnur Norræn lönd.
Hún tekur undir að það myndi auðvelda þetta ef hægt væri að nálgast þetta í sendiráðum erlendis.
„Það yrði áfram erfitt þar sem ég á erfitt með að ferðast, en samt talsvert auðveldara. Okkur finnst þetta svo skrýtið, í Danmörku er nýbúið að setja á laggirnar nýtt kerfi með rafræn skilríki og það þurfti ekkert að fara út úr húsi fyrir það. Það kom bara í heimabankann hjá manni og er alveg jafn öruggt og þessi íslensku,“ segir Hanna og heldur áfram:
„Manni finnst það út í hött að síðar á þessu ári hafi ég engan aðgang að sínum eigin pappírum á Íslandi. Ég er háð því að komast inn á þessar síður til að geta fylgst með tilkynningum og launaseðlum vegna örorkubótna. Svo eru þeir alltaf krefjast þess að maður endurnýji örorkuna á tveggja ára fresti og þarf því að komast í þessa pappíra áfram.“
Fyrir vikið veltir Hanna því fyrir sér hvort að þetta hafi verið hugsað til enda og bendir á að Íslendingar gætu þurft að ferðast heim vegna bilana í símum til þess að endurnýja rafrænu skilríkin.
„Þetta er bullandi óréttlæti.“