Framkvæmdarstjóri Strætó segir það vonbrigði að næturstrætó hafi ekki staðist væntingar, en í dag var tilkynnt að þjónustan yrði lögð niður. Ástæðan er meðal annars sú að notkunin var langt undir pari.
„Þetta er svona blanda af því hve léleg notkunin var og hver fjárhagsleg staða Strætó er, en það þurfti að forgangsraða hvert fjármagnið fer. Notkunin var vel undir væntingum, sem er stór hluti af þessari ákvörðun,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdarstjóri Strætó.
Jóhannes segir að það hafi verið mikið ákall eftir næturstrætó, þess vegna hafi notkunartölurnar komið honum á óvart. Hann veit hins vegar ekki af hverju fólk nýtti sér ekki þessa þjónustu.
„Ég held að það sé þannig að fólk kalli eftir þjónustu og vilji bara hafa hana ef það skyldi ætla nota hana. Við reyndum þetta í tilraunaskyni í nokkra mánuði og þetta er niðurstaðan,“ segir Jóhannes, sem útilokar þó ekki að þjónustan verði tekin upp aftur.
„Jájá það er auðvitað alveg möguleiki ef fjárhagsstaðan leyfir það,“ segir Jóhannes.
Hann telur að kostnaðurinn við að nýta sér næturstrætó hafi ekki verið vandamálið.
„Ef þú ert að bera þetta saman við leigubíl þá er þetta bara brotabrot af þeim kostnaði. Ég held að kostnaðurinn hafi ekki verið vandamálið, en ef við setjum þetta aftur á laggirnar þá verðum við að fara vel yfir það hvað betur má fara, hvort það megi gera þetta eitthvað öðruvísi. En eins og staðan er í dag verðum við að fella þetta niður,“ segir Jóhannes.