Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sagði að niðurstaða siðanefndar væri ógild í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í kvöldfréttum RÚV.

Líkt og kunnugt er var það niðurstaða siðanefndar að tveir þingmenn Miðflokksins, þeir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, hafi brotið gegn siðareglum Alþingis með ummælum sem þeir létu falla á Klausturbar.

Sigmundur Davíð tók undir með Gunnari Braga sem sagði að siðanefnd Alþingis væri á pólitískri vegferð gegn þingmönnunum. Sigmundur segir að fyrirkomulag Alþingis með Klaustursmálið hafi verið fráleitt.

Hann ítrekaði athugasemdirnar sem hann sendi á siðanefnd ásamt öðrum þingmönnum Miðflokksins, þeim Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni og Gunnari Braga Sveinssyni. Þar saka þau fulltrúa Alþingis um að hafa nýtt sér lögbrot í þágu pólitískra markmiða vegna þess að Persónuvernd úrskurðaði að upptakan væri ólögleg.

Aðspurður hvort niðurstaða siðanefndar myndi hafa einhverjar afleiðingar eða áhrif á þingmenn Miðflokksins sagði Sigmundur að niðurstaðan væri ógild að hans mati. Hann sagði að sérstök forsætisnefnd ætti ekki að dæma þingmennina í málinu.

„Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Haraldur Benediktsson og Steinunn eigi að fá að segja til um það hverjir eru hæfir til þess að vera þingmenn. Það eru kjósendur sem gera það og kjósendur munu taka afstöðu til þess og einnig starfa þeirra og annarra sem að þessu máli hafa komið.“