Vladímír Pútín Rússlandsforseti vill meina að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní, sem nú situr í fangelsi skammt frá Moskvu, hafi viljað láta handtaka sig. Þetta sagði Pútín í blaðamannaávarpi eftir fund sinn með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Genf.

Máli sínu til stuðnings benti Pútín á að Navalní hafi snúið aftur til Rússlands þrátt fyrir að vita að hann ætti þar yfir höfði sér fangelsisdóm. „Hann vissi vel að hann væri eftirlýstur en hann kom samt aftur til Rússlands og hann vildi láta handtaka sig. Hann gerði það sem hann vildi gera.“

Navalní var handtekinn í janúar fyrir að rjúfa skilorð sitt á fjársvikadómi sem hann hlaut árið 2014. Skilorðið rauf Navalní þegar honum var flogið meðvitundarlausum til Þýskalands í ágúst í fyrra til að gangast undir læknisaðgerð eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novitsjok. Navalní sneri aftur til Rússland í janúar eftir að hann náði fullum bata.

Á blaðamannafundinum dró bandaríska fréttakonan Rachel Scott athygli Pútíns að „löngum lista“ andstæðinga forsetans sem væru dauðir eða í fangelsi. Pútín sagðist ekki vilja að Rússland yrði eins og Bandaríkin og benti á að þar hefði fjöldi stjórnarandstæðinga verið fangelsaður eftir árásina á þinghúsið í Washington í janúar síðastliðinn. Þannig „glundroða“ sagðist Pútín ekki vilja sjá innan landamæra Rússlands.