Réttar­meina­fræðingurinn Michael Baden hefur nú úr­skurðað að dauði milljarða­mæringsins Jef­frey Ep­steins hafi borið að með sak­næmum hætti en þetta kemur fram í frétt New York Times um málið. Yfir­völd og réttar­læknir New York borgar höfðu áður lýst því yfir að Ep­stein hafi látist eftir að hafa hengt sig í fanga­klefa sínum.

Ep­stein fannst látinn í klefa sínum þann tíunda ágúst en hann hafði verið hand­tekinn snemma í júlí vegna gruns um fjölda kyn­ferðis­brota gegn ungum stúlkum sem hann hafði haft í kyn­lífs­þrælkun um ára­bil. Þá var einnig talið að Ep­stein hafi veitt valda­miklum vinum sínum að­gang að stúlkunum sem hann hélt í kyn­lífs­á­nauð.

Hlaut fjölda áverka sem bentu ekki til sjálfsvígs

Baden, sem var ráðinn af bróður Ep­steins, sagði Jef­frey hafa hlotið fjölda á­verka sem bentu mikið frekar til þess að hann hafi verið kyrktur heldur en að hann hafi framið sjálfs­víg. „Ég tel að sönnunar­gögnin bendi til morðs frekar en sjálfs­víg,“ sagði Baden í sjón­varps­þætti Fox News en hann fylgdist með krufningunni sem borgar­yfir­völd fram­kvæmdu.

Dauði Ep­steins hefur verið mjög um­deildur og velta sumir fyrir sér hvernig Ep­stein gat auð­veld­lega framið sjálfs­víg í klefa sínum en hann hafði áður reynt að taka sitt eigið líf og var á sjálfs­vígs­vakt þegar hann lést. Yfir­völd hafa ekki enn tjáð sig um úr­skurð Badens.