Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, segir að mót­mælendur sem tóku sér stöðu fyrir utan Hvíta húsið í gær hefðu mætt „grimmum hundum“ hefðu þeir komist yfir girðingu hússins. Þá full­yrðir hann einnig að mót­mælendurnir tengist ekki Geor­ge Floyd með neinum hætti.

Líkt og venjan er hóf for­setinn daginn á því að tísta. Nú tísti hann um víð­tæk mót­mæli sem hafa átt sér stað í nokkrum borgum Banda­ríkjanna vegna dauða hins þel­dökka Geor­ge Floyd. Líkt og greint var frá lét hann lífið vegna ofbeldis lögreglumanns. Sá hefur verið rekinn og ákærður vegna málsins.

Meðal þeirra borga sem mót­mælt hefur verið í eru New York, At­lanta, Port­land auk annarra borga. Mót­mælendur krefjast bættra vinnu­bragða meðal lög­reglu­manna og breyttrar stöðu svartra í Banda­ríkjunum.

Í tísti sínu þakkaði for­setinn leyni­þjónustunni fyrir við­brögð sín við mót­mælunum í Was­hington í gær. Full­yrti hann jafn­framt að mót­mælendur hefðu ekki verið þarna vegna dauða Geor­ge Floyd, heldur hefðu þetta verið „at­vinnu­mót­mæl­endur.“ For­setinn út­skýrði ekki nánar hvað hann meinti með því og sýndi ekki fram á neitt því til stað­festingar.

„Ég var inni, ég fylgdist með hverri hreyfingu og gæti ekki hafa liðið öruggari,“ skrifaði for­setinn fyrir um klukku­stund.

„Þeir leyfðu „mót­mælendunum“ að öskra eins mikið og þeir vildu en um leið og ein­hver reyndi eitt­hvað, voru þeir fljótir að beita sér gegn þeim, harka­lega, þeir sáu aldrei hvað lenti á þeim,“ skrifar þessi 45. for­seti Banda­ríkjanna.

„Fram­línan var svo fljót að fyllast af nýjum út­sendurum, alveg eins og töfrar. Stór mann­mergð, aug­ljós­lega skipu­lögð en enginn var ná­lægt því að komast yfir grind­verkið. Ef þeir hefðu gert það hefðu grimmir hundar tekið á móti þeim og rosa­legustu vopn, sem ég hef séð.“