„Það má kannski segja að það væri kurteisi af gosinu að halda svolítið áfram svo að fólk sem er búið að bíða og bóka ferð geti komið og séð það,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um lægðina á eldstöðvunum í Geldingadal undanfarna sólarhringa.

„En það er svo sem ekki öll von úti enn, skilst manni á jarðfræðingum,“ segir Jóhannes.

Um miðjan dag í gær var slokknað í aðalgígnum, að sögn Kristínar Jóns­dóttur, jarðeðlisfræðings og hóp­stjóra náttúruvár hjá Veður­stofunni.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdarstóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Mikil virkni hafði verið í gosinu daginn áður og fram á nótt og flæddi þá nýtt hraun ofan í Nátt­haga. Virknin lognaðist svo út af í gær og um tíma rann ekki hraun úr gígnum. Seinnipartinn var hins vegar aftur komin kvika upp á yfirborðið. Að mati náttúruvárhóps Suðurlands var þetta goshlé, en í gær sást í hraunbráð í fyrsta skipti frá því að gosið hófst 19. mars.

„Það fer eftir því hvernig á það er litið, segir Jóhannes, aðspurður um þýðingu þess fyrir ferðaþjónustuna ef hætti að gjósa.

„Gosið hefur náttúrulega valdið mikilli umfjöllun sem við höfum augljóslega notið góðs af. Ef gosið hverfur hefur það náttúrulega ekki sama aðdráttarafl fyrir fólk. En við höfum þó séð til dæmis við eldgosið í Holuhrauni og reyndar í Eyjafjallajökli líka, að svona viðburðir lifa nú töluvert eftir að þeim er lokið,“ segir Jóhannes og telur að vel megi búast við því að gosið muni eiga sér líf eftir dauðann.

„Glænýtt hraun, eins og þarna er, hefur alltaf aðdráttarafl þótt gosinu sjálfu sé lokið,“ segir Jóhannes og bætir við: „Það má gera ráð fyrir því að gosstaðurinn muni hafa aðdráttarafl sem áfangastaður, jafnvel í eitt til tvö ár eftir að gosinu lýkur, en auðvitað ekki á sama hátt.“

Jóhannes á ekki von á afbókunum þótt gosinu ljúki nú

„Þrátt fyrir allt er gosið nú bara eitt af því sem fólk hyggst skoða á ferð sinni um Ísland. Miðað við þær kannanir sem við höfum séð er gosið ekki helsti ákvörðunarþátturinn fyrir ferðalög til Íslands. Það er meira svona „VÁ faktor“ og eitt af því sem fólk hyggst þá skoða, en ekki úrslitaþáttur.“