Al Jazeera segist hafa rætt við ættingja manneskju sem var um borð í flugvélinni sem hrapaði í Pakistan í dag og að það hafi ekki allir sem voru um borð látist.

Manneskjan sem Al Jazeera ræddi við, Zainab Imam, greindi fyrst frá því á Twitter í færslu sem sjá má hér fyrir neðan.

Alls voru 107 um borð í Airbus A320 vélinni sem var að koma inn til lendingar í Karachi frá Lahore í dag. Þar af voru 99 farþegar um borð.

Vélin brotlenti á íbúðarsvæði nálægt flugvellinum og kviknaði í fjölmörgum íbúðarhúsum við lendinguna.

Búið er að staðfesta að sex einstaklingar hafi verið fluttir á sjúkrahús en óvíst er hvort að þessir einstaklingar hafi verið um borð í vélinni þegar hún brotlenti.

Þetta er annað flugslysið á síðustu fjórum árum hjá Pakistan International Airlines eftir að 47 létust þegar flugvél af gerðinni ATR-42 fórst árið 2016.

Flugfélagið var um tíma eitt af stærstu flugfélögum Mið-Austurlandanna en hefur átt erfitt uppdráttar fjárhagslega undanfarna áratugi.