Lyfjaskortur er vaxandi vandi út um allan heim eftir Covid og Úkraínustríðið. Afleiðingar eru farnar að bitna á íslenskum sjúklingum.

Íslenski markaðurinn er örmarkaður og hjálpar ekki til hve málsvæði íslenskunnar er lítið. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að Ísland hafi þurft að bregðast við með stórfjölgun á undanþágum.

„Okkur vantar fleiri markaðssett lyf og fleiri samheitalyf. Við höfum barist fyrir að fá undanþágur frá merkingum og hvetjum aðila til að vera með á íslenskum markaði,“ segir Rúna.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Mynd/Garðar Örn Úlfarsson

Lesendur Fréttablaðsins hafa sent ábendingar um lyfjaskort síðustu vikur. Sem dæmi var hjartalyfið Atenolol ófáanlegt um skeið. Einnig algengt verkjalyf, Norgesic, svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.

„Við erum mög vakandi yfir þessum málum og það er full ástæða til,“ segir Rúna.

Allar aðfangakeðjur eru að sögn Rúnu erfiðari en var.

„Upplýsingagjöf um þessi mál er góð en það er líka mikilvægt að við tölum okkur ekki upp í alvarlegan lyfjaskort. Við viljum ekki að fólk hamstri lyf af ótta við að ekkert verði til.“ Rúna segir að á þeim tímum sem lyfjaskortur sé vaxandi vandamál um allan heim hjálpi það ekki Íslandi hve markaður okkar sé lítill.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Fréttablaðið/Ernir

„Við erum með íslensku sem tungumál og undanþágurnar lúta fyrst og fremst að því að pakkningar eru ekki með upplýsingum á íslensku heldur öðrum tungumálum, jafnvel spænsku.“

Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, sagði á Alþingi í gær að 864 tilkynningar hefðu birst í fyrra um lyfjaskort hér á landi.

Hann sagði dæmi um að alvarlega veik börn fengju ekki lyf við hæfi hér á landi. „Hjá Lyfjastofnun vísar hver á annan,“ segir Guðmundur Ingi. „Ríkisstjórnin geri ekkert til að leysa vandann.“