Hertar sótt­varna­reglur vegna CO­VID-19 taka gildi á há­degi í dag. Byggir á­kvörðun Svan­dísar Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra þess efnis á til­lögum í minnis­blaði Kamillu Sig­ríðar Jósefs­dóttur, setts sótt­varna­læknis, og Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis.

Fjöldi þeirra sem mega koma saman verður 100 í stað 500 og tveggja metra reglan verður tekin upp á ný. Þá verður tvö­föld sýna­taka tekin upp hjá þeim sem koma til landsins frá á­hættu­svæðum og dvelja tíu daga eða lengur.

Á­stæða hertra ráð­stafana er fjöldi til­fella sem komið hafa upp undan­farna daga og ekki er hægt að tengja við inn­flutt smit. Í gær voru 39 ein­staklingar í ein­angrun en þá var til­kynnt um tíu ný til­felli. Þá hafa að minnsta kosti tvö til­felli hóp­smits komið upp.

„Við erum komin á þann stað að það þarf að grípa til mjög af­gerandi að­gerða og það þarf að grípa í hand­bremsuna,“ sagði Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra þegar að­gerðirnar voru kynntar í gær.

Svan­dís segir það vissu­lega von­brigði að þurfa stíga skref til baka. Þær ráð­stafanir sem nú er gripið til séu í sam­ræmi við það sem áður hafi verið gert. „Við gerðum það vel og við getum gert það aftur vel ef við hjálpumst að og snúum bökum saman með tveggja metra milli­bili. Þá ættum við að komast í gegnum þennan skafl saman.“

Lands­menn gætu þurft að venjast því að til skiptis væri hert og slakað á reglum næstu mánuðina. Hertar að­gerðir gilda í tvær vikur en Svan­dís segir að staðan verði metin á hverjum degi. Þá hafi það haft á­hrif að verslunar­manna­helgin sé fram­undan.
„Sótt­varna­læknir rök­styður þetta með því að það sé skyn­sam­legt að stíga mjög á­kveðið niður fyrir þessa miklu ferða­helgi frekar en að bíða og sjá og vera þá mögu­lega að eiga við miklu stærra og flóknara vanda­mál um miðjan ágúst,“ segir Svan­dís.

Á­kvörðunin um hertar að­gerðir hefur það í för með sér að þeim við­burðum sem skipu­lagðir höfðu verið um verslunar­manna­helgina hefur verið af­lýst. Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn beindi orðum sínum til unga fólksins sem beðið hefur spennt eftir því að fara í úti­legu. Slíkt yrði að bíða.

„Við erum ekki komin á það að vera með neyðar­á­stand og með sam­eigin­legum að­gerðum ætlum við að koma í veg fyrir að við lendum þar,“ sagði Víðir.

Neyðar­stjórn Reykja­víkur­borgar fundaði í gær vegna stöðunnar. Þjónusta borgarinnar mun í megin­at­riðum haldast ó­breytt en vinnu­lag sniðið að breyttum reglum.

Opið verður á söfnum og í sund­laugum en fjöldi gesta í hverju rými tak­markaður og gætt að fjar­lægðar­mörkum. Hið sama gildir um Fjöl­skyldu- og hús­dýra­garðinn.

Tvöföld sýnataka verður útvíkkuð.

Þetta eru helstu breytingarnar

  • Fjöldi þeirra sem mega koma saman takmarkast við 100 einstaklinga. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.
  • Alls staðar skal miða við að hafa að minnst kosti tveggja metra fjarlægð á milli einstaklinga.
  • Þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar á andlitsgrímum. Á þetta við um almenningssamgöngur og starfsemi eins og hárgreiðslustofur og nuddstofur.
  • Í verslunum, fyrirtækjum og opinberum byggingum sem eru opin almenningi skal tryggja aðgengi að handsótthreinsi.
  • Í sundlaugum og á veitingastöðum verði með fjöldatakmörkunum í samræmi við stærð hvers rýmis tryggt að gestir geti haldið tveggja metra fjarlægð sín á milli.
  • Lagt er til að annað hvort verði gert hlé á starfsemi þar sem gestir nota sameiginlegan búnað eða hann sótthreinsaður á milli notenda.
  • Lagt er til að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki unnt að tryggja fjöldatakmarkanir eða tveggja metra regluna.
  • Allir sem koma til landsins frá áhættusvæðum og dvelja tíu daga eða lengur eiga að fara í tvöfalda sýnatöku. Sé sýni tekið við komuna neikvætt er tekið annað eftir fjóra til sex daga.

Treysta fjarlægðarmörkum betur en grímunotkun

Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, segir grímu­notkun ekki vera þá ráð­stöfun sem yfir­völd treysta best til að koma í veg fyrir CO­VID-19 smit en að það geti hjálpað til við að draga úr dreifingu þar sem ekki er hægt að við­halda tveggja metra fjar­lægð milli ein­stak­linga.

„Við treystum betur á fjar­lægðar­ráð­stöfunina en þar sem er ekki hægt að nota hana, og það eru ó­skyldir ein­staklingar sem geta ekki sagt til um hverjir voru í grennd við þá, að þá gæti þetta hjálpað til við að draga úr frekari dreifingu.“

Meðal hertra sótt­varna­ráð­stafana sem taka gildi í dag er krafa um notkun and­lits­gríma þar sem ekki er hægt að virða tveggja metra regluna. Er þetta í fyrsta sinn sem til­mæli yfir­valda hér á landi fela í sér grímu­notkun.

Að sögn Kamillu kemur það nú til þar sem erfitt sé að rekja smit þegar fólk nýtir sér al­mennings­sam­göngur, til að mynda frá flug­vellinum. Gífur­leg aukning varð í sölu ein­nota gríma í gær.

Kamilla segir að reglurnar eigi helst við um al­mennings­sam­göngur og aðra staði þar sem stærð rýmisins er tak­markandi. Þannig geti fólk ekki virt tveggja metra regluna að vettugi til að mynda á skemmti­stöðum.