Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna segir allar tilraunir til þess að draga hana og Gunnlaug Braga Björnsson, varaborgarfulltrúa Viðreisnar, inn í umræðu um Klaustursupptökurnar „lygaspuna frá óvildarmönnum.“ Fyrr í dag var fullyrt á vef Viljans, nýjum vef Björns Inga Hrafnssonar, að stjórnmálamennirnir sem sátu á barnum Klaustur umrætt kvöld hefðu verið átta en ekki sex. 

Áttuðu sig fljótt á því að Klaustursþingmenn væru ofurölvi

Á Facebook-síðu sinni fjallar Líf um þessar ásakanir og segir að eftir borgarstjórnarfund þann 20. nóvember hefðu hún og Gunnlaugur Bragi kíkt á Klaustur. „Við settumst í sama rými og Sigmundur Davíð, Gunnar Bragi og Bergþór. Eftir drykklanga stund tekur Sigmundur Davíð eftir mér en við höfum þekkst síðan við störfuðum bæði á RÚV. Hann kallaði á okkur og bauð okkur að setjast hjá þeim. Við þáðum boðið en áttuðum okkur fljótt á því að félagarnir væru ofurölvi og varla samræðuhæfir. Við köstuðum því á þá kveðju og héldum heim á leið grunlaus um allt það sem hafði farið fram fyrr um kvöldið,“ ritar Líf.

Tekur hún fram að þingmennirnir sex hafi ekki sýnt þeim Gunnlaugi á neinn hátt dónaskap og né hafi hópurinn viðhæft þá orðræðu sem fjallað hefur verið um síðustu vikur. Segir hún það líklega hafa verið vegna þess að borgarfulltrúarnir hafi verið utanaðkomandi og ekki nema kunningjar í heimi stjórnmála.

Vill ekki vera dregin inn í „úrkynjun og mannhatur“

„Það er ekki frásögu færandi að kollegar fara á bar til að spjalla um daginn og veginn og hitta þar fyrir aðra kollega. Á Klaustri heilsaði ég líka öðrum sem ég þekki - eins og maður gerir. Hins vegar hefur atburðarrásin í framhaldinu tekið á sig lygilega mynd og nú skal bent í allar áttir eins og við höfum fengið að kynnast í fjölmiðlum. 

Búa til smjörklípur. Þessi “ekki frétt” sem birtist á svokölluðum fréttamiðli er greinilega tilraun til slíks. Ég hef ekkert að fela. Hef sagt frá því og aldrei haldið því leyndu að við Gulli áttum leið hjá á þessu örlagaríka kvöldi. Og að sú lífsreynsla hafi verið ansi súrrealísk á margan hátt.“

Að lokum segir hún allar tilraunir til að draga hana eða Gunnlaug inn í málið og spyrða þau við „úrkynjun og mannhatur sem átti sér stað þetta kvöld,“ vera lygaspuna.

„Blásaklaust fólk hefur verið dregið inn í þetta mál en ábyrgðin er alfarið sexmenninganna. Ég vísa þessu því alfarið til föðurhúsanna,“ ritar Líf að lokum.

Fullyrti að Gunnlaugur væri flugfreyja

Gunnlaugur Bragi tjáir sig einnig um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir vini Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar gera allt til að „bjarga honum frá falli.“ Það nýjasta, sé að draga hann og Líf niður með honum.

Fer hann einnig yfir málavexti og segir þau hafa gengið inn á Klaustur, stuttu fyrir miðnætti. „Þá var staðurinn nánast tómur, fyrir utan einn hóp á efri palli staðarins og þrjá þingmenn út í horni á neðri pallinum.

Við Líf keyptum okkur einn bjór hvort og settumst við lítið borð á neðri pallinum. Þingmennirnir þrír pældu lítið í okkur enda augljóslega ölvaðir og uppteknir af eigin rausi. Sem kom ekki að sök því við pældum lítið í þeim. Þangað til þeir fóru að tala um okkur! 

Það gerðu þeir stundarhátt en töldu sig þó sjálfsagt vera að hvísla. Þegar einn þeirra horfði á mig og sagði “hann er pottþétt flugfreyja!” gat ég ekki setið á mér og sagði “nei strákar – ég hef aldrei verið flugfreyja!”. Þetta fannst mér ég verða að segja enda hef ég sótt um slíkt starf en hef eflaust ekki þótt samsvara mér nægilega vel í hæð og þyngd,“ ritaði Gunnlaugur á Facebook-síðu sína fyrr í kvöld.

Segir Sigmund hafa spurt hvort hann væri farið hans

Segir hann Sigmund hafa í kjölfarið áttað sig á því að þar væri á ferðinni gömul kunningjakona hans af RÚV og upp hófst samtal milli borðanna. „Þremenningarnir kröfðust þess loks að við kæmum til þeirra sem við gerðum með nokkrum semingi. Við hlustum á rausið í þeim, spurðum stöku spurninga og játuðum og neituðum þeirra spurningum á víxl. 

Engum var hallmælt í því samtali og ekkert gaf til kynna á hvaða plani samtal þeirra hafði verið fyrr um kvöldið. Sigmundur Davíð spurði mig þó einu sinni hvort ég væri faðir hans. Því gat ég blessunarlega neitað. Eftir stutt spjall horfðumst við Líf í augu og lásum hratt og vel vilja hvors annars til að yfirgefa þetta súra pulsupartý – sem við og gerðum.“

Segist hann að lokum vona að þeir sem þekkja hann viti að svona myndi hann aldrei tala. „Þessari aumkunarverðu tilraun Björns Inga og félaga til að draga okkur Líf inn í þetta ömurlega mál vísa ég einfaldlega beinustu leið til föðurhúsanna – þar er skömmin og þar skal ábyrgðin öxluð.“