Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að lítið líf væri í ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í kvöld. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór með stefnuræðu sína í kvöld fyrir komandi þing og voru umræður að henni lokinni. 

Andstæðir pólar ekki svo ólíkir 

Þorgerður fór hörðum orðum um ríkisstjórnarsamstarf flokkanna þriggja í ræðu sinni og spurði áhorfendur og þingmenn hvers vegna stjórnmálaflokkar á borð við Vinstri græna og Sjálfstæðisflokkinn væru yfir höfuð að gera í ríkisstjórnarsamstarfi. 

„Eftir situr sú staðreynd að hin pólitíska víglína hefur breyst, jafnvel umturnast. Og þessir fyrrnefndu andstæðu pólar, eru ekki svo ólíkir þegar allt kemur til alls,“ sagði Þorgerður. 

Þorgerður sagði þó Vinstri græna verða að sætta sig við, og horfast í augu við, þá gagnrýni að þau séu einfaldlega millistykkið sem tengir „gamalgróna flokka saman“ 

„Segi stopp við Trumpara þessa lands“

Þorgerður ræddi einnig um pólitíska orðræðu og minnti á að þeir sem trúaa á frjálst, opið, markaðssinnað samfélag yrðu að spyrna aftur fótunum þegar kæmi að afturhaldsöflum. 

„Þegar við horfum til Bandaríkjanna þá vonum við að skynsamlega þenkjandi repúblikanar stöðvi vitleysuna í Trump. Það sama gildir hér heima, við vonumst til þess að frjálslynt fólk, sama hvar í flokki það stendur, reyni að sporna við þessari þróun. Segi stopp við Trumpara þessa lands,“ sagði Þorgerður Katrín.

Ríkisstjórn sem ekki mun rugga bátnum

Þorgerður Katrín minnti einnig á heilbrigðismál í landinu og spurði ríkisstjórnina á biðlista inn á heilbrigðisstofnanir landsins. 

„Þegar allt kemur til alls, er hér starfandi ríkisstjórn sem ekki mun rugga bátnum,“ sagði Þorgerður sem lauk ræðu sinni með því að minna á fjölbreytileikann.