Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, segir rangt hjá Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakanna, að Seðlabankinn standi nú í þriggja milljarða króna framkvæmdum fyrir eitt eldhús.

Breki sagði í Fréttablaðinu í vikunni:

„Á meðan Seðlabankinn skapar skömm hjá þeim sem fara á sólarströnd og taka mynd af eigin tásum, er hann sjálfur í heljarinnar framkvæmdum á eigin aðstöðu.“

„Það er verið að laga eldhúsið í Seðlabankanum fyrir þrjá milljarða króna. Þarf aðhaldið ekki að byrja heima?“

Í svörum Stefáns fyrir hönd Seðlabankans segir að endurbætur við allt húsnæði Seðlabankans við Kalkofnsveg 1 hafi byrjað árið 2020 og hafi tvennt komið til.

„Annars vegar þurfti að endurnýja ýmislegt; leiðslur, tæki og fleira. Hins vegar þurfti að koma fyrir öllum starfsmönnum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem var sameinað bankanum í upphafi árs 2020. Við þurftum að koma ríflega hundrað starfsmönnum fyrir til viðbótar,“ segir Stefán.

Af þeim sökum hafi rými verið opnuð til að koma starfsfólkinu fyrir á fimm aðalhæðum fyrir starfsaðstöðu starfsfólks. Auk þess sé verið að taka viðbyggingu í gegn, ásamt kjallara og jarðhæð, enda sé ýmislegt komið á viðhaldstíma.

Eldhús og mötuneyti eru hluti þessara framkvæmda að sögn Stefáns.

„Eldhús og mötuneyti er ekki nema lítill hluti af heildarfjárhæð,“ segir Stefán.

Ekki er ágreiningur um að heildarkostnaður vegna framkvæmdanna gæti orðið nálægt þremur milljörðum ef allt er talið.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna