Seðlabanki Íslands hefur ekki afhent sagnfræðingnum og lögfræðingnum Birni Jóni Bragasyni gögn sem tengdust Eignasafni Seðlabankans ehf. (ESÍ) og Hildu ehf. eins og úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði í sumarbyrjun.

Segist Seðlabankinn ekki hafa upplýsingarnar. Fyrirspurnir Björns Jóns hafa meðal annars lotið að viðskiptum bankans með úkraínska apótekakeðju.

„Seðlabankinn á að hafa þessar upplýsingar. Þessar eignir voru hluti af samstæðu bankans og endurskoðendur eiga að fara yfir þetta allt saman. Í rauninni er með hreinum ólíkindum að bankinn hafi ekki aðgang að umræddum gögnum,“ segir Björn Jón, sem vann mál fyrir úrskurðarnefndinni 1. júní síðastliðinn.

„Að mínu viti er Seðlabankinn að hundsa niðurstöðu nefndarinnar,“ segir hann.

Gögnin sem Björn Jón hefur meðal annars reynt að fá frá bankanum um áraraðir lúta að viðskiptum félaganna ESÍ ehf. og Hildu ehf. með félögin Ukrapteka Limited og Torpedo Leisure Limited í Bretlandi, sem ráku apótekakeðju í Úkraínu. Eignirnar rötuðu í safn Seðlabankans úr fórum MP banka eftir bankahrunið.

Margt er óljóst í þessari viðskiptasögu, sem Björn Jón vill varpa ljósi á, en virðist sem svo að Seðlabankinn hafi keypt aðra hluthafa, það er Íslandsbanka, út úr keðjunni árið 2014 en þá lagt fé í félögin.

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og lögfræðingur
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í þeim fábrotnu gögnum sem Björn Jón hefur fengið frá Seðlabankanum kemur fram að félögunum hafi verið slitið árið 2017 og kaupverðið lagt inn á lögbókanda í Úkraínu og sé þar enn. Óvíst er hvort féð, sem sé líklega umtalsvert, fáist nokkurn tímann endurheimt.

Sjálfur hefur Björn Jón kannað hvort það tíðkist að leggja kaupverð inn á lögbókanda í Úkraínu og svo er ekki. Þessi sala þarfnist því athugunar við.

Einnig vantar upplýsingar um annan kostnað sem fylgdi þessum viðskiptum sem séu mjög ógagnsæ því að þau voru inni í félögum sem slitið var í Bretlandi og skiluðu ekki ársreikningum eða í íslenskum félögum Seðlabankans.

Björn Jón hefur ekki fengið formlegt bréf frá Seðlabankanum eftir úrskurðinn en í óformlegum tölvupósti sem hann fékk frá lögfræðingi bankans þann 22. júlí kemur fram að skýrsla um ESÍ verði birt á „næstu misserum“. Óvíst er hins vegar hversu langur tími það er en orðabókaskilgreiningin á misseri er sex mánuðir.

Björn Jón segist ekki hættur að reyna að varpa ljósi á viðskipti Seðlabankans með úkraínsku apótekin. „Ég held áfram að spyrjast fyrir um þetta,“ segir hann.

Auk þess að furða sig á pukri Seðlabankans með þessi gögn furðar Björn Jón sig á skeytingarleysi stjórnmálamanna. Þingmenn ættu til dæmis að taka málið upp og upplýsa það. Málið snúist um umtalsverða fjármuni almennings og það eigi að vera uppi á borðum hvernig farið var með þá.