Seðlabanki Íslands var í morgun dæmdur til að afhenda Ara Brynjólfssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu, upplýsingar um samning sem Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.

Dómur þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Ari óskaði upplýsinganna í nóvember á síðasta ári en Seðlabankinn synjaði beiðni hans. Hann leitaði þá til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það tók nefndina fimm mánuði að kveða upp úrskurð, blaðamanninum í vil. Seðlabankinn stefndi honum svo sumar til að fá úrskurðinum hnekkt.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fékk Ingibjörg greitt á annan tug milljóna króna við starfslok sín hjá bankanum, bæði með launagreiðslum án kröfu um vinnuframlag og námsstyrk við Harvard-háskóla.

Fréttin verður uppfærð.