Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu 17. desember síðastliðinn að Seðlabankinn hafi brotið jafnréttislög með því að ráða Stefán Rafn Sigurbjörnsson sem upplýsingafulltrúa bankans fram yfir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur sem kærði ráðninguna. RÚV greinir frá en úrskurðurinn var birtur á vef Stjórnarráðsins.

Í samanburði sem nefndin gerði kemur fram að Gunnhildur hafi lokið þremur háskólagráðum, þar af diplómagráðu og annarri á meistaragráðustigi. Stefán Rafn hafi lokið BA-gráðu og stundað nám með hléum á árunum 2009 til 2017.

Gunnhildur hafi haft að minnsta fimm ára lengri reynslu af kynningarstarfi en Stefán þegar þau sóttu um starfið hjá Seðlabankanum. Reynsla hans af kynningarstarfi hafi eingöngu verið úr starfsnámi. Hún hafi unnið að gerð fréttatilkynninga með erlendum stórfyrirtækjum, haft reynslu af því að að bregðast við og hafa samband við fjölmiðla vegna umfjöllunar og haft reynslu af skýrsluskrifum. Stefán hafi ekki haft þá reynslu.

Kærunefnd tekur undir með Gunnhildi um að Stefán hafi einungis verið ráðinn til starfa fram yfir hana vegna kynferðis. Tveir aðrir upplýsingafulltrúar starfa í Seðlabankanum, það eru þeir Stefán Jóhann Stefánsson og Sigurður G. Valgeirsson.

„Heilt á litið nægja þannig þau sjónarmið sem kærði hefur dregið fram í málinu ekki til þess að ályktað verði að sá karl sem ráðinn var hafi staðið kæranda framar við ráðningu í umrætt starf. Að öllu framangreindu virtu hefur kærði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra.“

Starfstími Gunnhildar á fjölmiðlum þrefalt lengri starfstími Stefáns

Kærunefnd bendir á að Gunnhildur hafi mun víðtækari reynslu umfram Stefán, svo munar sjö árum. Stefán hefi hins vegar um árs lengri reynslu af útvarpsfréttamennsku en Gunnhildur.

„Kærandi var stjórnandi; fréttastjóri og ritstjóri með yfirsýn yfir allar unnar fréttir hvern dag í starfi. Sá sem ráðinn var hefur ekki þá reynslu. Kærandi hefur verið tilnefnd til verðlauna fyrir blaðamennsku. Slíka tilnefningu hefur sá sem ráðinn var ekki. Kærandi hefur reynslu af ljósmyndun í starfi og af gerð hlaðvarpa. Þá reynslu hefur sá sem ráðinn var ekki,“ segir í samanburðinum.

„Sá sem ráðinn var talaði sem formaður ungra jafnaðarmanna og hefur verið í framvarðarsveit í skólapólitík og annarri. Kærandi hefur verið talsmaður félags með 30 milljarða árlega veltu í markaði. Kæranda hefur verið treyst til að stýra mannskap á vinnustað. Það á ekki við um þann sem ráðinn var. Kærandi hefur lokið áföngum í MBA–námi sem sanna góða þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum. Sá sem ráðinn var hefur enga sambærilega menntun.“

Nefndin segir það augljóst að Stefán Rafn hafi uppfyllt með mun lakari hætti en Gunnhildur hlutlægar kröfur til starfsins. Gunnhildur telji því að Stefán hefði aldrei átt að ná svo langt í ráðningarferlinu sem raun hafi borið vitni. Hlutlægum mælikvörðum hafi verið vikið til hliðar og ráðningin byggð á huglægum sjónarmiðum.

„Bæði uppfylla örugglega þessa kröfu hvort á sinn hátt. Kærandi lauk þó námsframvindu á háskólastigi á hefðbundnum og eðlilegum námshraða. Það gerði sá sem ráðinn var ekki heldur lauk hann á þreföldum tíma námi sem telst þriggja ára nám.“