Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, odd­viti Pírata í borgar­stjórn segir mikinn missi af Sigur­borgu Ósk Haralds­dóttur, formanns Skipu­lags-og sam­göngu­ráðs, úr borgar­stjórn. Alexandra Briem, vara­borgar­full­trúi Pírata, sem taka mun við sæti Sigur­borgar í borgar­stjórn segist sjálf hafa orðið vitni að ógnandi til­burðum gagn­vart Sigur­borgu.

Eins og fram kemur í helgar­blaði Frétta­blaðsins hyggst Sigur­borg stíga til hliðar vegna veikinda sem hún rekur til mikils á­reitis. Þar lýsti hún því meðal annars hvernig hún hefði orðið fyrir gagnrýni vegna starfa sinna, meðal annars í sturtu í Vesturbæjarlaug. „Þetta er auð­vitað bara alveg ó­trú­lega sorg­legt,“ segir Dóra Björt.

„Það er lýð­ræðis­legt vanda­mál að ung kona í blóma lífsins með svo mikla krafta og þekkingu missi heilsuna vegna á­reitisins sem hún verður fyrir þegar hún er að þjóna sam­fé­laginu okkar. Þetta er fyrst og fremst mikill missir fyrir borgar­búa. Sigur­borg er al­gjör­lega mögnuð manneskja, náttúruta­lent og eldhugi sem hefur á stuttum tíma tekist að marka djúp spor í þágu um­hverfisins. Það hefur verið heiður að fá að starfa með henni.“

Hún segir að hún og Sigur­borg hafi farið frá því að þekkjast nánast ekkert yfir í að verða nánar trúnaðar­vin­konur. „Þetta hefur verið svo­lítið við gegn heiminum. Því er þetta mikill missir fyrir mig per­sónu­lega og ég er eigin­lega gráti nær þegar ég segi þetta. Ég er í á­kveðnu sorgar­ferli, til að vera alveg heiðar­leg, en er að reyna að halda öllu saman og skipu­leggja næstu skref borgar­stjórnar­flokksins. Við í borgar­stjórnar­flokknum höfum verið eins og ein líf­vera, eitt vist­kerfi. Þetta hefur verið hlýtt og gefandi sam­starf.“

Upp­lifði sjálf ein­kenni þung­lyndis

Hún segir að á­reitið sem borgar­full­trúar verði fyrir sé gífur­legt. „Ég held að við séum mörg að ein­hverju leyti farin að venjast þessu sem er líka hættu­legt. Við sem berum mikla á­byrgð erum á fundum allan daginn til að ýta málum á­fram og svo er dunið á okkur á sama tíma í fjöl­miðlum og á sam­fé­lags­miðlum og við höfum sjaldnast tíma til að bera hönd fyrir höfuð.“

Dóra bendir á að á Al­þingi hafi stjórn­mála­flokkarnir til handa að­stoðar­fólk. Í borgar­stjórn sitji full­trúar frekar einir. Hún segist upp­lifa að nei­kvæðni í garð meirihlutans byggi oftar en ekki á mis­skilningi sem lítill tími gefist til að leið­rétta.

„Það er ó­trú­lega vond og slítandi til­finning,“ segir Dóra. „Ég upp­lifði sjálf ein­kenni þung­lyndis eftir fyrsta árið mitt í borgar­stjórn þegar ég gegndi hlut­verki for­seta borgar­stjórnar, formanns fagráðs og auð­vitað odd­vita flokks á sama tíma um leið og bragga­málið var í há­mæli og mikil læti tengd því.“

Hún segir mikla hörku hafa verið í um­ræðunni. Þá hafi hún þurft að fara í mikla sjálfs­vinnu til að geta hugsað sér að halda á­fram, en tekur fram að það séu for­réttindi að fá að starfa í borgar­stjórn. „En þó að það hafi farið svona þá kemur kona í konu stað og við munum halda hug­sjónum Pírata á lofti borgar­búum til heilla. Við höfum verið sterkar og við verðum á­fram sterkar.“

Tekur sæti Sigur­borgar

Alexandra Briem, vara­borgar­full­trúi Pírata, sem tekur við sæti Sigur­borgar Ósk Haralds­dóttur, borgar­full­trúa Pírata, segist sjálf hafa orðið vitni að ógnandi til­burðum gagn­vart Sigur­borgu í Face­book færslu. Í samtali við Fréttablaðið staðfestir hún að hún muni taka sæti Sigurborgar í borgarstjórn.

Alexandra segir að það hafa verið sannur heiður að starfa með Sigur­borgu og fylgjast með henni ná árangri í skipu­lags­málunum.

„En á sama tíma hefur verið ó­trú­lega erfitt að horfa upp á það mikla á­reiti og álag sem því fylgir, þó ég hafi örugg­lega ekki orðið vitni að nema broti af því.
Hún hefur nefni­lega náð miklum árangri í að breyta kerfum sem „freki karlinn“ ætlar sér ekki að leyfa neina breytingu á. Sem hann lítur á sem sitt sér­svið, sitt yfir­ráða­svæði. Hann ætlar sér ekki að líða öðrum, sér­stak­lega ekki ungri konu að koma inn á þann völl, síst af öllu til að breyta neinu,“ skrifar hún.

„Yfir ára­tugi hafa frekir bíl­eig­endur og fram­leið­endur unnið að því á vestur­löndum að skipu­lag og upp­bygging sé á þann veg að í raun sé enginn annar raun­hæfur ferða­máti en sá sem þeir kjósa. Og ó­víða hefur þeim gengið betur en á Ís­landi. Freku karlarnir á Ís­landi hafa séð rautt yfir árangri Sigur­borgar og ég hef séð ógnandi til­burði gagn­vart henni bæði í eigin per­sónu sem og í skrifum sem er satt að segja ó­trú­legt að þeir hafi komist upp með.“